Myrða aðallega í bókum

Colorbox

Áhugi á íslenskum glæpasögum fer vaxandi á erlendri grundu. Arnaldur Indriðason hefur komið út á flestum tungumálum, um fjörutíu. Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir hafa bæði komið út á um þrjátíu tungumálum. Nú alveg nýlega kom út bók eftir Yrsu í rússneskri þýðingu sem telst til tíðinda því það eru allmörg ár síðan íslensk glæpasaga kom út þar í landi.

Auk þeirra þriggja þá hafa höfundar eins og Lilja Sigurðardóttir, Árni Þórarinsson, Jónína Leósdóttir, Eva Björg Ægisdóttir og Sólveig Pálsdóttir öll komið út í erlendum þýðingum.

Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta, segir skýringuna á vinsældum íslenskra glæpasagna ekki síst liggja í miklum áhuga á Íslandi og því sem íslenskt er í útlöndum. Þá spyrji margir bókaáhugamenn erlendis sig hvers vegna þjóð, þar sem morð séu eins fátíð og raun ber vitni, skrifi svona margar glæpasögur. „Mörgum þykir þetta merkilegt, það er að morð séu mun tíðari í bókum en veruleikanum á Íslandi.“

Hrefna segir umgjörð sagnanna einnig skipta máli. Hrátt íslenskt umhverfið, myrkrið, snjóinn og einmanaleikann í fásinninu. „Þetta þykir mörgum heillandi og spennandi.“

Vilja kynnast Íslendingum

Bryndís Loftsdóttir, hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda, er á því að áhuginn á íslenskum glæpasögum sé hluti af almennum áhuga á landi og þjóð. Sumir lesi landkynningarbækur áður en þeir stefna skónum hingað á norðurhjara veraldar, aðrir leiti í glæpasögur og bókmenntir almennt. „Áhugi á okkar smávaxna og skrýtna samfélagi hefur aukist mikið á síðustu árum og fyrir fólk sem býr í stórborgum getur samfélag þar sem allir þekkja alla verið mjög áhugavert og heillandi. Síðustu ár hafa erlendir ferðamenn aðallega verið að rekast á aðra erlenda ferðamenn á ferðum sínum um landið en í bókunum eru Íslendingar í forgrunni og þeim vill fólk kynnast.“

Í þessu sambandi segir Bryndís það hafa ótvírætt gildi að sögurnar gerist vítt og breitt um landið, þannig fái lesendur í senn innsýn í lífið á höfuðborgarsvæðinu og í minni bæjum og þorpum úti á landi.

Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur.
Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur. Ásdís Ásgeirsdóttir


Séð margar myndir af Hallgrímskirkju

Yrsa Sigurðardóttir hefur oft farið utan til að kynna bækur sínar og segir lesendur sem koma að máli við hana fyrst og fremst heyra til tveimur hópum. „Til að byrja með var mest um fólk sem hafði farið til Íslands eða var á leiðinni þangað. Ég hef séð margar myndir á símaskjáum af Hallgrímskirkju á ferðum mínum og reyni alltaf að vera jafn spennt,“ segir hún hlæjandi. „Núna er hins vegar meira um lesendur sem unna glæpasögum og koma til að hitta mann vegna bókanna en ekki vegna þess hvaðan maður er. Það er frekar að bækurnar hafi vakið áhuga þeirra á Íslandi og því að koma hingað en öfugt, þótt þær séu alla jafna ekki túristavænar. Ætli þetta sé ekki orðin ákveðin samlegð með glæpasögunum og túrismanum. Úti í heimi þykir Ísland almennt mjög forvitnilegt land.“ 

Á pari við það besta úti í heimi

Kristján Atli Ragnarsson, formaður dómnefndar íslensku glæpasagnaverðlaunanna, Blóðdropans, árið 2020, segir gæði þeirra höfunda sem ruddu brautina ráða mestu um velgengni íslenskra glæpasagna á erlendri grundu. „Ég les mikið glæpasögur, innlendar sem erlendar, og leyfi mér að fullyrða að okkar bestu höfundar eru alveg á pari við það besta sem er að gerast úti í heimi,“ segir hann og bætir við kíminn: „Erum við ekki vön að vera best í heimi miðað við höfðatölu? Á það ekki við um glæpasögur eins og annað?“

Nánar er fjallað um velgengni íslenskra glæpasagna erlendis í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert