Félagsleg fjárfesting álíka ábatasöm og flugvöllur

Með því að fjárfesta í mjúkum innviðum og fækka þeim …
Með því að fjárfesta í mjúkum innviðum og fækka þeim börnum sem verða fyrir ítrekuðum áföllum er hægt að spara þjóðfélaginu háar upphæðir til lengri tíma, fyrir utan jákvæð tilfinningaleg áhrif. mbl.is/Styrmir Kári

Ávinningur af því að grípa fyrr inn í erfiðar aðstæður barna, þannig að hægt sé að koma í veg fyrir eða fækka áföllum og aðstoða börnin við að vinna úr þeim, getur verið gríðarlega mikill fyrir þjóðfélagið. Telja upphæðirnar í tugum milljarða þegar horft er yfir lengra tímabil. Þetta er niðurstaða Björns Brynjúlfs Björnssonar hagfræðings, en hann mun kynna niðurstöður sínar á ráðstefnu í dag, samhliða því að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnir frumvörp í barnamálum sem miða að því að gjörbylta aðstæðum barna og fjölskyldna þeirra.

„Í grunninn er niðurstaða mín að með frumvarpinu séu stjórnvöld að byggja upp innvirði sem skila miklum ávinningi til langs tíma litið. Ég áætla að breytingarnar skili sambærilegri arðsemi og ábatasömustu innviðaframkvæmdir síðustu áratuga, eins og til dæmis uppbygging Keflavíkurflugvallar,“ segir Björn í samtali við mbl.is. Frumvörpin eru í grunninn þríþætt. Þau taka á vöktun með farsæld barna, að viðbrögð og þjónusta séu skjótari og skilvirkari og að lokum að þjónusta sé samfelld og samþætt milli allra kerfa hins opinbera.

100 milljarða árlegur kostnaður undir

Kostnaður samfélagsins vegna frávika einstaklinga frá þroska og heilsu, sem tengja má við áföll í barnæsku, nemur tæplega 100 milljörðum króna árlega að sögn Björns. Þar er horft til áfalla sem koma til vegna misnotkunar, ofbeldis, vímuefnaneyslu í fjölskyldu og annarra vandamála heima fyrir. Geta áföllin haft áhrif á hegðun barna, orsakað sjúkdóma, örorku og samfélagsleg vandamál og snemmbær dauðsföll.

Kemur kostnaðurinn fram í auknum útgjöldum heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, í félagslegri þjónustu og réttarvörslukerfinu. Er heildarupphæð þar metin á rúmlega 45 milljarða árlega. Þá eru auknar tilfærslur í félagslega kerfinu vegna þessa metnar á rúmlega 20 milljarða, meðal annars örorkubætur. Lægri skatttekjur, meðal annars í því formi að viðkomandi sé ekki á vinnumarkaði, eru að lokum metnar á um 30 milljarða.

Björn segir að fyrir hvern og einn einstakling þar sem hægt sé að breyta um kúrs í barnæsku, grípa fyrr inn í með aðstoð félagslega kerfisins, megi spara háar fjárhæðir, enda er um að ræða útgjaldaliði eða tekjufall sem spannar oftast allt lífskeiðið.

Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur.
Björn Brynjúlfur Björnsson hagfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhættuhegðun og aukin félagsleg vandamál

Miðað við rannsóknir bæði í Evrópu og vestanhafs, sem notast er við í greiningu Björns, er þunglyndi meðal annars þrisvar sinnum algengara hjá þeim börnum sem hafa orðið fyrir mörgum áföllum en þeim sem ekki hafa orðið fyrir áföllum. Þá er kvíði um fjórfalt algengari milli þessara hópa og örorka rúmlega tvöfalt algengari. Sjálfsvígstilraunir eru þá allt að 34 falt algengari milli hópanna.

Í greiningu sinni notaðist Björn við aðferðafræði sem notið hefur vaxandi vinsælda bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, en reynt var að heimfæra forsendur sem notaðar hafa verið í Danmörku yfir í íslenska líkanið. Björn tekur fram að í útreikningunum sé ekki reiknað með tilfinningalegum kostnaði, svo sem vanlíðan einstaklinga. Möguleg jákvæð áhrif þar um séu því aukinn plús við fjárhagslegan ávinning sem greiningin tekur til.

Í dag er áætlað að árlega verði um 2.500 börn fyrir einu eða fleiri teljandi áföllum á ári hverju. Flestum þeirra tekst að vinna úr áföllunum, meðal annars með samræðum við foreldra, aðra úr fjölskyldu eða vini. Hins vegar er talið að um 14% vinni ekki úr þessum áföllum, eða um 350 börn árlega. Mynda þau mengi barna sem eru með frávik frá farsæld, þ.e. þessi hópur er umtalsvert líklegri til þess að eiga síðar á lífsleiðinni við áhættuhegðun að etja, glíma við andleg og líkamleg vandamál, örorku og sjálfsvígstilraunir. Í greiningu Björns er horft til þess að með aðgerðunum sem fram koma í nýja frumvarpinu sé hægt að ná þessum fjölda niður í um 300 börn, þ.e. fækkun um 50 árlega.

Miðað við kostnaðaráætlun sem fylgir frumvarpinu er gert ráð fyrir að það muni kosta um 1,3 milljarða árlega. Björn segir að ávinningurinn komi strax fram í minni kostnaði við börn sem eigi í erfiðleikum í skólakerfinu, en stóru upphæðirnar komi fram þegar fólk nái miðjum aldri. „Í stað þess að hið opinbera fjármagni viðkomandi einstakling í gegnum lífið skapar hann mikil verðmæti á vinnumarkaði og skilar af þeim skatttekjum,“ segir Björn.

Borgar sig ef útgjöld lækka um 2-3%

Bendir hann á að ekki þurfi að lækka útgjöldin vegna þessa hóps um nema 2-3% á ári til þess að verkefnið borgi sig. Þannig skili verkefnið fjárhagslegum ábata þó aðeins sé um tæplega 10 börn að ræða sem hægt sé að koma hjá þeim aðstæðum að vinna ekki úr áföllum. „Þótt það væru ekki nema 20 sem myndu færast þarna á milli á ári þá myndi þetta borga sig,“ segir Björn.

Í útreikningum sínum horfir hann til mjög langs tíma, eða 50-70 ára, og því segir Björn að fjárfesting sem þessi sé í grunninn sambærileg við innviðafjárfestingar. Miðað við gefnar forsendur taki um áratug fyrir nýja kerfið að skila beinum fjárhagslegum ábata, en eftir það fari snjóbolti af stað sem stækki eftir því sem á líður og ábatinn verði meiri.

„Góð fjárfesting fyrir hið opinbera“

„Ég treysti mér því til að segja að þetta sé góð fjárfesting fyrir hið opinbera,“ segir Björn og bætir við að forsendurnar þurfi að vera mjög skakkar til að sú niðurstaða breytist.

Ráðstefnan, þar sem bæði ráðherra og Björn munu fara yfir frumvarpið og fjárhagslegar hliðar þess, fer fram í dag klukkan 13:00 og verður hægt að fylgjast með streymi af ráðstefnunni hér á mbl.is.

mbl.is