Kafaldsbyl spáð í kvöld

Spáin er mjög slæm fyrir Hellisheiði og Þrengsli í kvöld …
Spáin er mjög slæm fyrir Hellisheiði og Þrengsli í kvöld en þar fer veðrið að versna um klukkan 18. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Veður fer versnandi á Hellisheiði og í Þrengslum síðdegis og verður kominn kafaldsbylur þar snemma í kvöld eða um klukkan 20. Ekki fer að lægja fyrr en um miðnætti. Um svipað leyti fer að hlána. Þetta kemur fram í færslu veðurfræðings Vegagerðarinnar á Twitter.

Flughált er á Kjósarskarðsvegi og víða hálkublettir á Suðvesturlandi. Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka eða snjóþekja. Þæfingsfærð er þó yfir Bjarnarfjarðarháls en ófært er norður í Árneshrepp.

Seint í dag hvessir af suðaustri, hvassviðri eða stormur í kvöld með snjókomu og slyddu en rigningu eftir miðnætti. Suðvestlægari vindur og skúrir eða slydduél á morgun og kólnar aftur smám saman. Gular viðvaranir eru í gildi í kvöld fram á nótt víðast hvar á landinu.

mbl.is