Gera ráð fyrir 11,3 milljarða halla

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun 2021-2025 verður lagt fram í borgarstjórn í dag kl. 14.00. Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta verði neikvæð um 11,3 milljarða króna en skili jákvæðum rekstri eftir tvö ár. Bent er á að nú sé met-samdráttur í hagkerfinu og atvinnuleysi meira en 10% í Reykjavík.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni, að rekstrarniðurstaða samstæðu sé áætluð neikvæð um 2,7 milljarða. Gert sé ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu frá árinu 2022 og jákvæðri rekstrarniðurstöðu A-hluta frá árinu 2023. 

Veltufé frá rekstri lækki á árinu 2021 en fari svo að stíga á ný. Í lok áætlunartímabilsins sé gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum verði 19,0% hjá samstæðu og 9,6% hjá A-hluta. Fjármálastefna og fjárfestingarstefna gera ráð fyrir að skuldir verði greiddar niður frá árinu 2025, að því er borgin segir.

Borgin fari í umfangsmiklar fjárfestingar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir í tilkynningunni, að það sé efnahagslega mikilvægt að borgin leggist ekki í vörn, heldur haldi sjó í rekstri og fari í umfangsmiklar fjárfestingar. Þá segir að borgin ætli að nýta sterka stöðu sína og lágt skuldahlutfall til að mæta efnahagsáfallinu sem kórónuveirufaraldurinn hafi skapað.

„Við viljum snúa vörn í sókn og kynnum umfangsmikla viðspyrnuáætlun. Heildarfjárfesting samstæðu borgarinnar næstu þrjú ár nemur 175 milljörðum króna. Efnahagssamdrætti og tekjufalli verður mætt með lántökum en borgin nýtir styrk sinn og mun vaxa út úr samdrættinum á nokkrum árum. Við leggjum fram sóknaráætlun til skammtíma og ábyrga græna sýn um sjálfbærni á öllum sviðum til lengri tíma. Græna planið er efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sóknaráætlun út úr kórónuveirukreppunni og þannig getum við bæði staðið vörð um störfin, skapað ný störf og búið til samfélag þar sem allir geta verið virkir þátttakendur,“ segir Dagur. 

Græna planið sé sóknarætlun borgarinnar

Þá segir í tilkynningunni, að Græna planið sé sóknaráætlun Reykjavíkurborgar. Jafnframt sé lögð fram fjármálastefna og fjárfestingarstefna sem sé vegvísir út úr kreppunni. Sérstök aðgerðaráætlun á tekju- og útgjaldahlið muni svara fjármálalegum áskorunum til lengri tíma. Fjármálastefnan, sem nú sé lögð fram í fyrsta sinn, setji markmið um rekstur og þróun fjármála borgarinnar til lengri og skemmri tíma. Þak sé sett á skuldahlutfall, bæði árlega og í heild. Meðal aðgerða í aðgerðaáætlun borgarinnar sé 1% hagræðing á ári á launakostnaði í gegnum aðhaldsaðgerðir og stafræna umbreytingu. 

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einnig sé lögð mikil áhersla á vinnumarkaðsaðgerðir til að skapa störf fyrir fólk sem annars færi á fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur. Um leið stefni borgin að því að fjölga útsvarsgreiðendum með auknu og fjölbreyttu framboði íbúða svo eitthvað sé nefnt.

175 milljarða fjárfestingar á 3 árum

Á meðal dæma um lykilfjárfestingaverkefni í Reykjavík yfir tímabil Græna plansins til 2030, þá er stefnt að því á næstu þremur árum að Reykjavíkurborg ætli að verja 95 milljörðum í fjárfestingar. Stór hluti þeirra falli undir grænar fjárfestingar. Fyrirtæki borgarinnar muni á sama tíma fjárfesta fyrir 80 milljarða, stærstu fjárfestingarnar verði í grænum innviðum og félagslegu húsnæði.

Þá verði milljarði króna varið í að búa til ný störf fyrir atvinnulausa, stuðningsúrræði og virkni fyrir fólk á fjárhagsaðstoð á næsta ári. Yfir 5 milljarðar verði lagðir árlega á næstu árum í átak í uppbyggingu búsetuúrræða fatlaðs fólks og fyrir heimilislausa og fjölgun félagslegra leiguíbúða.

Þá er bent á, að með borgarlínu, orkuskiptum og hjólastígakerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið verði bylting í grænum samgöngum. Reykjavík verði hjólaborg á heimsmælikvarða. Grænar fjárfestingar í samgöngusáttmála ríkis og SSH í Reykjavík verði yfir 50 milljarðar til 2030.

Þá muni nýir skólar rísa í Skerjafirði, Vogabyggð og Ártúnshöfða og leikskólaplássum verði fjölgað til að taka inn ársgömul börn.

Einnig er stefnt að því að tíu milljörðum verði varið í viðhald næstu þrjú ár. Fjárveitingar til endurnýjunar eldra skólahúsnæðis verði stórhækkaðar og Borgarbókasafnið í Grófarhúsi og Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi verði endurnýjuð.

Nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina