MDE seilist langt í túlkun á íslenskum rétti

Mannréttindadómstóllinn.
Mannréttindadómstóllinn.

Eiríkur Elís Þorláksson, deildarforseti lagadeildar hjá Háskólanum í Reykjavík segir Mannréttindadómstól Evrópu ganga langt í gagnrýni sinni á Hæstarétt Íslands í dómi sínum um Landsréttarmálið. Hann segir ekki ljóst hvernig Hæstiréttur hefði mátt gera sér ljóst þær athugasemdir sem í dómnum felast í ljósi ósamræmis í niðurstöðum undirréttar og yfirréttar í málinu.  

MDE gangi nokkuð langt 

„Yfirdeild Mannréttindadómstólsins (MDE) virðist fara aðra leið við túlkun á 6. gr. mannréttindasáttmálans, (um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi) samanborið við dóm neðri deildarinnar, og þá einkum hvað varðar það hvort skipan Landsréttar hafi verið „ákveðin með lögum.“ En yfirdeildin leit svo á að svo hafi ekki verið. Mér virðist sem MDE gangi nokkuð langt í að móta þessa reglu og víkka út gildissvið hennar. Aðferðafræðin hjá MDE felst í því að beita svokallaðri þriggja þrepa túlkun við mat á þessu atriði,“ segir Eiríkur. 

Þá segir Eiríkur að m.a. í ljósi þessa telji hann yfirdeild MDE fara ansi langt í gagnrýni sinni á niðurstöðu Hæstaréttar Íslands eins og hún er sett fram í dómnum. „Spyrja má hvernig Hæstiréttur hefði átt að geta áttað sig á slíkri túlkun ákvæða sáttmálans, m.a. þegar horft er til þess innbyrðis ósamræmi sem er í þessum tveimur dómum MDE sjálfs,“ segir Eiríkur. 

Vandséð að erlendur dómstóll sé bær til afstöðu

„Þá virðist mér sem MDE seilist einnig nokkuð langt í túlkun á íslenskum rétti í dómi sínum. Sem dæmi um þetta er umfjöllun í dómi MDE um að Alþingi hafi ekki fylgt reglum um tilhögun kosninga. Þá eru gerðar athugasemdir við framkvæmd Hæstaréttar á íslenskum réttarfarslögum, þ.e. þegar rétturinn tók afstöðu til málsástæðna í sakamálinu. Vandséð er að erlendur dómstóll sé bær að taka afstöðu til þessa með þeim hætti sem gert er í dómi yfirdeildarinnar,“ segir Eiríkur. 

Eiríkur Elís Þorláksson, forseti lagadeildar HR.
Eiríkur Elís Þorláksson, forseti lagadeildar HR. Aðsend mynd.
mbl.is

Bloggað um fréttina