Eftirlit Gæslunnar á landamærum Evrópu tefst

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar.
TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Fresta þarf árlegu verkefni Landhelgisgæslunnar er snýr að landamæraeftirliti í Miðjarðarhafi fram til janúar á nýju ári. Gæslan tekur þátt í samstarfi Frontex um landamæraeftirlit á ytri landamærum Evrópu, en vegna verkfalls flugvirkja Gæslunnar í síðasta mánuði, tefst þetta samstarf. 

„Eins og við má búast í kjölfar svona aðstæðna verður að endurskipuleggja margt í starfsemi okkar. Þar á meðal eru verkefni flugvélar okkar,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is

„Viðhald á loftförum Gæslunnar stendur nú yfir á Reykjavíkurflugvelli og sú vinna hefur gengið vel. TF-GRÓ er nú starfhæf og um miðjan mánuðinn verður TF-EIR starfhæf.“

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Þrjár þyrlur ákjósanlegast

Ásgeir segir að þrátt fyrir að þrjár þyrlur Gæslunnar séu nú starfhæfar sé ákjósanlegast að þær séu þrjár á hverjum tíma.

„Ef aðeins tvær þyrlur eru starfhæfar má lítið út af bregða til þess að aðeins ein þyrla sé starfhæf. Ef önnur þeirra bilar eða eitthvað slíkt þá er mjög vont að hafa aðeins eina þyrlu til taks í einu.“

Ásgeir segir að von sé á þriðju þyrlunni í janúar, TF-GNÁ.

Allir leggjast á eitt

Spurður um andrúmsloftið meðal starfsmanna Gæslunnar í ljósi laga sem sett var á verkfall flugvirkja í síðasta mánuði segir hann þetta: „Það horfa allir fram á veginn og það hafa allir lagst á eitt við að ljúka þeim verkefnum sem fyrir eru.“

mbl.is