Allir í landsliðinu með bók

Bjarni Fritzson gefur bækurnar út sjálfur og dreifir þeim í …
Bjarni Fritzson gefur bækurnar út sjálfur og dreifir þeim í búðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Metsöluhöfundurinn Bjarni Fritzson veit fátt skemmtilegra en að lesa bækur. Hann las mikið sem barn en á unglingsárunum tók annað við, eins og gengur. Fljótlega eftir tvítugt kom bókin á hinn bóginn aftur af fullum þunga inn í líf hans. Hann var liðtækur handboltamaður og þegar hann fór í fyrstu keppnisferðina sína með A-landsliðinu gerðist svolítið merkilegt.

„Það voru allir í landsliðinu með bók,“ segir hann, „og ég gat ekki látið mitt eftir liggja. Þarna byrjaði ég að lesa Arnald og fleiri góða höfunda. Það er svo mikilvægt að hafa flottar fyrirmyndir í lífinu. Þess utan fylgir því svo mikil hugarró að lesa og týna sér í sögunni. Maður lærir ótrúlega margt af góðum bókum.“

Tekur völdin af Orra

Bjarni sendir tvær bækur frá sér nú fyrir jólin. Annars vegar er það Orri óstöðvandi: Bókin hennar Möggu Messi og hins vegar sjálfstyrkingarbókin Öflugir strákar: Trúðu á sjálfan þig.

„Magga Messi fær sína kafla í fyrri bókunum tveimur um Orra en þar sem hún er með mikið sjálftraust og svolítið kokhraust þá telur hún sig geta léttilega skrifað sína eigin bók sem ætti að minnsta kosti að vinna Nóbelsverðlaunin eða Óskarinn, að því er henni finnst,“ segir Bjarni en nýja bókin hefst einmitt á því að Orri óstöðvandi er að leggja lokahönd á sína bók en Magga tekur af honum völdin. Finnst nóg komið af Orra í bili. Okkar maður á þó ugglaust eftir að ná sér aftur á strik síðar.

Sem fyrr rekur hvert ævintýrið annað. Magga lendir í bandóðum Blikaþjálfara sem reynir að skemma fyrir henni Rey Cup, versta fólk í heimi flytur í húsið við hliðina á henni og foreldrar hennar reyna að stela jólunum, svo fátt eitt sé nefnt. Til allrar hamingju hefur Magga Orra sér við hlið gegnum þessar raunir allar.

„Ég hef mjög gaman af því að setja sögurnar í ævintýralegan búning og láta söguhetjurnar lenda í ýmsu skemmtilegu. Það er mikilvægt að margt sé að gerast í bókum fyrir börn og unglinga og mikill hasar enda er samkeppnin um athygli þeirra mjög mikil, eins og við þekkjum. Það skiptir líka máli að brjóta textann upp og hafa myndir, eins og þau eiga að venjast úr símanum og tölvunni.“

Bjarni Fritzson í leik með ÍR fyrir nokkrum árum.
Bjarni Fritzson í leik með ÍR fyrir nokkrum árum. Eva Björk Ægisdóttir


Forvörnin byrjar strax

Hin bókin, Öflugir strákar: Trúðu á sjálfan þig, er sjálfstyrkingarbók fyrir stráka og byggð á námskeiðunum sem Bjarni hefur haldið í að verða sjö ár.

„Ég lagði mikið upp úr því að hafa bókina aðgengilega fyrir krakka og er hún því sett upp í svipuðum stíl og Orra óstöðvandi-bækurnar. Stútfull af myndum og skemmtilegum sögum af Orra, Möggu og öðrum flottum fyrirmyndum. Allt gert til þess að auðvelda lesandanum að skilja og tileinka sér umfjöllunarefni líkt og sjálfsmynd, sjálfsrækt, sjálfstraust, núvitund, árangur, mótlæti, þægindaramma og margt margt fleira,“ segir Bjarni og bætir við að forvörnin byrji strax, ekki þegar hlutir eru byrjaðir að fara á verri veg.

Nánar er rætt við Bjarna Fritzson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert