Nú heiti ég Ljóni

„Ég á heima hér. Ég er skrítinn heima í Quebec; …
„Ég á heima hér. Ég er skrítinn heima í Quebec; þar er ekki lengur mitt fólk,“ segir Ljóni sem ákvað átta ára að gerast Íslendingur. mbl.is/Ásdís

Ljóni býður blaðamanni inn í notalega íbúð sína í Skerjafirðinum þar sem hann býr ásamt sambýliskonu sinni. Fallega skreytt fura stendur þar í horninu og skapar hlýlega jólastemningu. Í bókahillu í stofunni má sjá fjölmargar tungumálabækur; orðabækur og málfræðibækur og fáni Sama hangir þar úr einni hillunni.

Við ræðum brennandi áhuga Ljóna á vísindum og minnihlutatungumálum en hann talar þau nokkur; tungumál sem hann kenndi sér að mestu sjálfur.

Íslenskan stendur þó hjarta hans næst.

Þið munuð aldrei skilja þetta

Ljóni fæddist í úthverfi Montreal í Quebec í Kanada árið 1988 og var gefið nafnið Étienne Léon Poisson. Fjölskyldan var ósköp venjuleg Quebec-fjölskylda og á heimilinu var töluð franska. Engin tengsl voru við Ísland né Íslendinga. En hinn ungi Étienne Léon hafði snemma mikið dálæti á hinni íslensku Björk.

Ljóni talar mörg minnihlutatungumál og segist ekkert þurfa að kunna …
Ljóni talar mörg minnihlutatungumál og segist ekkert þurfa að kunna mál sem milljónir manns tala. mbl.is/Ásdís

„Þegar ég var átta, níu ára hlustaði ég mikið á Björk. Á þeim tíma þurfti ég að gera rannsóknarverkefni í skólanum um eitthvert land, og af því ég elskaði Björk valdi ég Ísland, sem ég vissi þá ekkert um. Ég fékk þá mikinn áhuga á landinu, en þó aðallega á tungumálinu,“ segir Ljóni sem talar óaðfinnanlega íslensku. Svo góða að ekki er nokkur leið að heyra minnsta vott af hreimi og allar beygingar og setningargerðir eru réttar.

Ljóni segist hafa ákveðið þá og þegar að læra íslensku, kornungur drengurinn.
„Það var gerð heimildarmynd um Björk einhvern tímann fyrir löngu og í henni sýnir hún dagbókina sína, sem er skrifuð á íslensku. Hún segir í myndavélina: „Þið munuð aldrei skilja þetta.“ Ég tók því sem áskorun,“ segir Ljóni sem segist ungur hafa haft mikinn áhuga á skrítnum stafrófum, eins og því rússneska og gríska.

Þarf ekki að tala við milljónir

Um fjórtán ára aldur hafði Ljóni kennt sjálfum sér heilmikið í íslensku en fékk þá senda kennslubók í íslensku og íslenskri málfræði sem hann lagðist í.
„Þá fékk ég loksins efni sem ég gat notað, því áður hafði ég bara verið á netinu og það voru mjög fáar vefsíður þar sem maður gat lesið texta og fengið að hlusta á hljóðsýni. Svo keypti ég mér fleiri bækur til að lesa og orðabók í gegnum Bóksölu stúdenta og ég þurfti að borga svo mikið til að fá hana senda heim!“ segir hann og dæsir.

Hvað fannst foreldrum þínum um þennan áhuga þinn á íslensku?

„Mömmu fannst það mjög skrítið. Hún hefði viljað að ég hefði lært eitthvert stærra tungumál sem væri meira gagn að. En mér finnst það skrítin hugsun, að vilja til dæmis læra þýsku af því að margar milljónir tala þýsku. Ekki ætla ég að tala við svona marga milljónir; ég vil aðallega bara tala við tvær þrjár manneskjur,“ segir hann og hlær. 

Var alltaf nörd

Ljóni var enginn venjulegur unglingur. Hann eyddi öllum sínum frítíma í þetta sérkennilega áhugamál, að læra íslensku.

„Ég var nörd áður en ég byrjaði að læra íslensku. Ég var alltaf frekar mikið í mínum eigin heimi og hef aldrei haft mikla þörf til að vera innan um marga eða að sanna mig. Ég var aðallega að læra íslensku, hlusta á Björk og ímynda mér hvernig líf mitt yrði á Íslandi. Því ég var löngu búinn að ákveða að ég myndi flytja hingað; það gerðist alveg strax í byrjun. Ég man mjög vel eftir að hafa legið í rúmi mínu sem unglingur og talið hvað ég þyrfti að vinna marga daga í hvað mörg sumur til að eiga pening til að fljúga hingað sem fyrst,“ segir hann.
„Það er svo langt síðan ég byrjaði að læra íslensku að ég man varla eftir því. Ég man ég var að reyna að ná errum og að æfa mig að fallbeygja og ég man að ég grét yfir tölvunni þegar ég skildi ekki neitt.“

Breytti nafni sínu í Ljóni

Ljóni heimsótti Ísland í fyrsta sinn þegar hann var um sautján ára. Hann hafði þá kynnst íslenskum skiptinema úti og urðu þau perluvinir.

Ljóni á fullar hillur af tungumálabókum og elskar málfræði.
Ljóni á fullar hillur af tungumálabókum og elskar málfræði. mbl.is/Ásdís

„Hún heitir Birna og við kynntumst af því að allir vissu að ég væri „íslenski gaurinn“. Hún var í öðrum skóla en við áttum sameiginlega vini og urðum svo mjög nánir vinir. Við töluðum oftast íslensku saman og hún kenndi mér mikið. Svo leið ár og þá fór ég til hennar í fimm vikur og svo leið aftur ár og þá flutti ég hingað,“ segir Ljóni og hefur hann búið hér síðan, fyrir utan tvö ár þegar hann var í meistaranámi í Svíþjóð.

Spurður um nafnið Ljóni segist hann hafa lengi verið kallaður því nafni.

„Það var hún Birna sem byrjaði að kalla mig Ljóna. Nú heiti ég Ljóni. Ég sótti um að fá nafnið samþykkt í fyrra, en ég hét áður Étienne Léon Poisson en millinafnið breyttist í Ljóna. Ég vildi ólmur fá nafn sem beygist rétt. Ég vildi geta fallbeygt mitt eigið nafn. Svo finnst mér nafnið flott og ég er alltaf kallaður Ljóni.“

Aldrei aftur heim

Þegar Ljóni flutti hingað alkominn nítján ára gamall lá leiðin beint í háskólann en Ljóni kom hingað á styrk frá Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Kanada og hóf nám í íslensku í Háskóla Íslands. Ekki íslensku fyrir útlendinga, því það var allt of létt fyrir unga manninn sem hafði þá kennt sjálfum sér íslensku í tíu ár.

„Ég kom hingað og vissi að ég myndi aldrei flytja heim aftur, en ég þurfti að fara heim á sumrin. Ég sótti um undanþágu fyrir að þurfa ekki að fara í íslensku fyrir útlendinga, því styrkurinn var ætlaður þeim sem myndu fara í það nám. En ég kom hingað 24. ágúst 2008 og tók öll prófin fjórum dögum seinna og náði öllu og fékk leyfi til að fara beint í íslensku. Sem ég sá svo eftir, því þar voru aðallega kenndar bókmenntir. Ég hef engan áhuga á bókmenntum. Ég hef áhuga á hljóðfræði, hljóðkerfisfræði og málgerðarfræði. En við þurftum að lesa fimm bindi af sögu íslenskra bókmennta og mér fannst allir heita sömu nöfnunum. Ég var alveg týndur en ég náði þessu. Þetta var mjög erfitt, að læra um dróttkvæði og bragarhætti en ég fékk aðeins að hátta náminu eins og ég vildi. Ég fékk að taka finnskunámskeið. Ég var reyndar orðinn reiprennandi í finnsku áður.“ 
Blaðamaður hváir.

Ef finnska og íslenska ættu barn

Hvenær lærðir þú finnsku?

„Ég byrjaði að læra finnsku kannski tveimur, þremur árum eftir að ég byrjaði að læra íslensku. Ég fór í gegnum öll Norðurlandamálin. Íslenskan var fyrst, svo sænska, norska og svo finnskan og þaðan fór ég yfir í samísku. Ég bjó í Svíþjóð þannig að ég tala sænskuna og ég tala samískuna og finnsku kann ég mjög vel. En ég fæ aldrei að tala hana. Það eru fáir Finnar á Íslandi og þeir eru ekki mjög skrafhreifnir,“ segir hann og brosir.

 „Íslenska er hjartamálið mitt. Það er ekki móðurmálið mitt en það er tungumál lífs míns. Ég fór í gegnum táningsárin að hluta til á íslensku og öll fullorðinsárin eru á íslensku. Finnskan er „frústreraða“ málið mitt því ég hef enga tengingu við Finna og ég myndi segja að ég væri með blæti fyrir samísku. Það er fallegasta og áhugaverðasta tungumálið! Það er akkúrat eins og ef finnska og íslenska hefðu átt barn saman,“ segir hann og blaðamaður getur varla ímyndað sér hvers konar bastarður það væri.

En Ljóni sannfærir hann um að varla sé til fegurri tunga en samíska og segir einnig finnsku vera afar fallegt tungumál.

„Hún er svo hrein. Eins og vel smurð vél. Þar er allt reglulegt og allt skýrt. Þar er allt svart-hvítt. Stundum þegar maður hlustar á finnsku hljómar það næstum eins og vélmenni sé að tala. Ég fíla það og finnst það sjarmerandi. Það er gaman að tala þannig,“ segir hann og gefur blaðamanni dæmi af setningu og hvernig hún hljómar. 
Aðeins einu sinni hefur Ljóni komið til Finnlands.
„Ég var í Finnlandi í viku árið 2011 en talaði ekki mikið. Það vildi enginn tala við mig,“ segir hann og skellilhlær.

Vildi verða vísindamaður

Ljóni kláraði BA-gráðu í íslensku og kenndi með námi útlendingum íslensku hjá Mími.
„Það var ótrúlega gefandi og ég sakna þess. Það var svo gaman að taka kannski eitthvað eitt fyrir, eins og viðtengingarhátt þátíðar og reyna að útskýra það þannig að þau skildu. Og ég tel mig hafa mjög góðan skilning á öllu svona og ég elska málfræði. Ég elskaði að kenna, en ákvað svo að fara aftur í nám og valdi lífefnafræði. Ég hafði alltaf áhuga á vísindum og vildi leggja mig fram við að skilja þau í alvörunni. Og verða vísindamaður,“ segir hann en Ljóni kláraði BS-próf árið 2016. Á námsárunum öðlaðist hann svo íslenskan ríkisborgararétt og gat því farið frítt í framhaldsnám til Svíþjóðar. 

Í dag vinnur Ljóni hjá Alvotech og nýtur sín vel þar. Þar vinnur hann í rannsóknarstofu við lyfjaprófanir.

Vildi aðlagast hundrað prósent

Ljóni segir Íslendinga hafa langflesta tekið sér strax vel, enda talaði hann málið það vel að sumir sem hann hitti trúðu ekki að hann væri útlendingur og báðu hann jafnvel um að sýna sér vegabréfið sitt.

„Ég kunni málfræðina og beygði rétt en auðvitað var margt í byrjun sem ég vissi ekki. En ef maður talar góða íslensku er maður Íslendingur. Ég segi stundum „þið“. Ég er Íslendingur en kannski ekki alveg íslenskur. Mig vantar hér fyrstu fimmtán, tuttugu árin. Ég á enga íslenska barnæsku.“

Þú talar alveg eins og Íslendingur!

 „Á góðum degi. Það var alltaf planið. Ég vildi alltaf verða Íslendingur og geta aðlagast hundrað prósent. Ég vildi ekki vera öðruvísi en aðrir hér. Það gerist alveg að ég segi eitthvað vitlaust eða nota vitlaust fall. Það gerist helst ef ég er þreyttur eða tala við yfirmenn. Það er alltaf martröð. Ég er viss um að yfirmaður minn heldur að það sé eitthvað að mér, því ég er alltaf svo stressaður að tala við hana,“ segir hann og hlær. 

Draumurinn að búa í Samalandi

Ertu alveg sestur að hérna?

„Sko, draumur minn er að flytja til Samalands. Landslagið þar er eiginlega alveg eins og á hálendi Íslands. Ég nærist á þessu tungumáli og menningunni, en þetta eru frumbyggjar þannig að það er allt gjörólíkt okkar menningarheimi. Það er verið að brjóta mannréttindi þar á hverjum degi og ég finn mikið til með Sömum. Ég væri til í að kenna þar eða taka þátt í endurlífgun málsins. Það þarf fólk með málvísindakunnáttu og sem kann að útskýra málfræðina og sem getur búið til kennsluefni. Þetta er mjög lítið tungumál, en það eru 85.000 Samar í fjórum löndum og minna en helmingur þeirra talar samísku, en það eru níu samísk tungumál. Ég tala bara norður-samísku, sem er það tungumál sem flestir Samar tala,“ segir Ljóni og segir um 30.000 manns tala það tungumál.

„Planið er að flytja þangað áður en ég verð fertugur en við ætlum fyrst að reyna að eignast barn,“ segir hann og segist vera búinn að sannfæra Júlíu um að það sé góð hugmynd að flytja þangað um hríð.

Ljóna dreymir um að aðlagast samísku samfélagi jafn vel og hann hefur aðlagast íslensku samfélagi. Hann hefur þó aldrei komið þangað þótt hann tali málið reiprennandi.

Mér líður best hér

Við förum að slá botninn í samtalið enda komið að kvöldmatartíma. Óhætt er að segja að spjallið við þennan einstaka mann hafi verið bæði skemmtilegt og fræðandi. Og þó Ljóni hafi fæðst í Quebec er hann sannarlega Íslendingur.

„Ég á heima hér. Ég er skrítinn heima í Quebec; þar er ekki lengur mitt fólk. Ég fann eitt sinn mjög gamla íslenska orðabók þar sem Quebec var þýtt sem Hvíbekkur og ég bjó þá til nýtt orð og lít á mig sem Hvíbekkverja fram til ársins 2005 en þá byrjuðu tengslin mín við Quebec að rofna. Ég rækta ekki mikil tengsl við mína gömlu vini þar. Líf mitt er tvískipt,“ segir Ljóni. 

„Ég sem fullorðin manneskja er Íslendingur og mér líður best hér.“

Ítarlegt viðtal við Ljóna er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert