„Einhver lenska að hjóla í skiptastjórana“

Sveinn Andri Sveinsson skiptastjóri EK1923.
Sveinn Andri Sveinsson skiptastjóri EK1923. mbl.is/Árni Sæberg

Úrslitaatriði um að félagið EK1923, áður Eggert Kristjánsson ehf., fór í gjaldþrot var að fasteign félagsins að Skútuvogi 3 var tekin úr félaginu án þess að greiðsla kæmi í staðinn, en um var að ræða upphæð upp á rúmlega 200 milljónir árið 2013. Þetta segir Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri búsins, í samtali við mbl.is.

Hann segir jafnframt að skiptastjórar skynji í auknum mæli að djöflast sé í þeim persónulega vegna gjaldþrotamála, en umrædd skipti hafa ítrekað verið til umfjöllun í fjölmiðlum. Samtals kostuðu skipti EK1923 tæplega 200 milljónir.

Skipum á búinu er formlega lokið og fengust allar kröfur greiddar upp sem og 59% í eftirstandandi kröfur, sem eru meðal annars vextir og annar kostnaður sem kemur eftir gjaldþrotaúrskurð. Það þýðir í raun að allar þær kröfur sem voru til á félagið áður en það fór í þrot fengust uppgreiddar auk þess sem 59% fékkst upp í 187 milljóna kröfur sem komu eftir gjaldþrotið.

Hálfur milljarður innheimtist í „stóra málinu“

Við gjaldþrotið voru um sjö milljónir á reikningum félagsins, en eftir sjö dómsmál við bæði fyrri eigenda og ríkið fengust greiddar rúmlega 600 milljónir inn í búið. Sveinn Andri staðfestir við mbl.is að fyrir utan um 20 milljónir sem hafi komið inn sem almenn innheimta hafi um 608 milljónir komið í gegnum dómsmálin. Þar af var lang stærsta upphæðin í gegnum „stóra málið,“ en þar er um að ræða dómsmál gegn félaginu Sjöstjörnunni ehf. sem þrotabúið vann fyrir Hæstarétti í október.

Var Sjöstjarnan dæmd til að greiða 223 milljónir auk vaxta og gjalda, en samtals var sú upphæð komin upp í rétt tæplega hálfan milljarð að sögn Sveins Andra. Staðfestir hann jafnframt að uppgjörið hafi átt sér stað, en eigandi Sjöstjörnunnar er athafnarmaðurinn Skúli Gunnar Sigfússon, jafnan kenndur við Subway. Snérist málið að mestu um viðskipti með fasteign EK1923 að Skútuvogi 3, en Sveinn Andri taldi að ekki hefði fengist greiðsla fyrir fasteignina þegar hún var seld frá EK1923. Var lokaniðurstaða Hæstaréttar að Sjöstjörnunni bæri að greiða umrædda upphæð, en fasteignin hafði áður verið seld áfram til Fasteignafélagsins Reita og því erfitt að rifta kaupunum til Sjöstjörnunnar.

„Félagið hefði verið vel statt og áfram starfandi

Sveinn Andri segir að í raun hafi það verið umræddur gjörningur að taka fasteignina út úr félaginu sem „reið baggamuninn að félagið fór í þrot.“ Fyrir félag sem þetta hafi skipt miklu máli að eiga fasteign með eigið fé upp á um 200 milljónir, en með gjörningnum þegar eignin var seld Sjöstjörnunni hafi sá peningur ekki komið inn. Reyndar hafi áhvílandi lán verið greidd upp, „en restin kom ekki,“ segir Sveinn Andri og bætir við: „Félagið hefði verið vel statt og áfram starfandi ef það hefði ekki selt fasteignina.“

„Þetta er taktík sem mörgum finnst vera sniðug“

Deilan í kringum skiptin hefur verið mjög hörð og hafa þeir Sveinn Andri og Skúli tekist nokkuð á vegna þessa. Hefur Skúli meðal annars sagt Svein Andra ofsækja sig, en Sveinn Andri á móti sakað lögmann Skúla hagsmunaárekstra og vanhæfi þegar fjögur félög sem öll voru kröfuhafar í EK1923 kvörtuðu undan starfsháttum Sveins Andra. Þá hefur Skúli sagt líkur á refsiverðri háttsemi Sveins Andra við skiptin. Að lokum kærði Sveinn Andri háttsemi Skúla og tveggja annarra starfsmanna félaga hans til saksóknara sem endaði með að héraðssaksóknari gaf út ákæru og hófst aðalmeðferð þess máls í héraðsdómi í dag.

Aðspurður hvort þetta mál hafi verið óvenjulega persónulegt segir Sveinn Andri að hans verkefni hafi frá upphafi aðeins verið að ná inn sem mestu af eignum fyrir búið sem svo væri hægt að leysa upp og standa skil á við kröfuhafa. „Þetta snýst ekki um neinar persónur,“ segir Sveinn Andri. Hann segist þó hafa orðið var við ákveðna breytingu á undanförnum árum í málum sem þessum. „Það virðist vera einhver lenska að hjóla í skiptastjórana þegar farið er að þrengja að viðsemjendum,“ segir hann og bætir því við að menn reyni nú í auknum mæli að „djöflast í skiptastjórum.“ Sveinn Andri segir þetta þó ekki skila sér í niðurstöðu dómstóla. „Þetta er taktík sem mörgum finnst vera sniðug, en sem betur fer sjá flestir dómarar í gegnum þetta.“

197 milljónir í skiptakostnað

Í tilfelli EK1923 segir Sveinn Andri að hann hafi haft um 90% kröfuhafa að baki sér og þeir hafi staðið á bak við hann í störfum sínum þrátt fyrir allan fjölda málaferlana. Þá hafi áætlun þeirra gengið upp á heildina litið. „Strategían sem ég og stærstu kröfuhafarnir lögðum upp með var að nota peninga sem komu inn í búið til að klára stóra málið. Menn veðjuðu á að vinna það og það gekk upp í Hæstarétti. Þá myndu kröfurnar fást greiddar að fullu.“ Það hafi gengið eftir og bæði forgangskröfur og almennar kröfur hafi fengist fullgreiddar.

Eitt af þeim atriðum sem þeir Sveinn Andri og Skúli deildu um var skiptakostnaður og tímagjald við skiptin. Sveinn Andri staðfestir við mbl.is að skiptakostnaðurinn hafi verið rúmlega 197 milljónir í það heila, en inn í þeirri tölu er almennur skiptakostnaður, aðkeypt þjónusta, sérfræðiráðgjöf, bókhald, dómsgjöld o.fl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert