„Mjög erfitt að búa á Íslandi“

Á jólunum í fyrra, örlítið flóknara að ná allri fjölskyldunni …
Á jólunum í fyrra, örlítið flóknara að ná allri fjölskyldunni í Danmörku saman á mynd núna þegar telst lögbrot að fara milli landshluta. Frá vinstri: Nathalie Sunna, dóttir þeirra, Höskuldur tengdasonur með Minervu barnabarni, Guðný í miðjunni, Andrea Björk, elsta dóttirin, Róbert heldur á Kristófer, yngsta syni þeirra, og Ísabella Lind, dóttir númer þrjú. Ljósmynd/Aðsend

„Hvar á ég að byrja?“ spyr Guðný Matthíasdóttir, margmiðlunarhönnuður og fyrrverandi tollvörður hjá tollstjóranum í Reykjavík, embætti sem nú er ekki til lengur, spurð út í búsetu fjölskyldunnar í Danmörku þar sem þau Róbert Halbergsson maður hennar hafa nú búið ásamt fjórum börnum frá því 2012, eftir að hafa reyndar áður flutt frá Danmörku til Íslands og reynt að fóta sig á Fróninu.

Guðný og Róbert búa í Glostrup, skammt frá höfuðstaðnum, kóngsins Kaupmannahöfn, en tvær uppkomnar dætur þeirra búa á Fjóni og í Álaborg og yngri börnin tvö hjá þeim hjónunum. „Þetta er bara eins og að búa í Hafnarfirði,“ segir Guðný og hlær.

„Við fluttum til Íslands af því að við héldum að allt væri svo frábært þar og allir svo hamingjusamir eftir hrun, þegar því öllu var lokið,“ segir Guðný frá, en hún hélt til náms til Danmerkur í margmiðlunarfræðum sínum árið 2007, síðasta gullaldarár Íslands fyrir bankahrunið eftirminnilega, og er nú menntuð í markaðssetninu á rafrænum miðlum og rekstri vefverslana, en Guðný er með BA-gráðu í „e-concept development“ sem hún á oft í mestu vandræðum með að útskýra almennilega fyrir öðrum.

Sakna margs frá Íslandi

„Við vorum hérna úti 2007 til 2012 og fluttum svo heim af því að búið var að lofa manninum mínum vinnu við það sem hann var að læra [Róbert er grafískur hönnuður]. Svo komum við heim og þá var vinnan bara alls ekkert í boði og við lentum bara í tómu rugli,“ segir Guðný, „vorum heima í sex ár í endalausu einhverju húsnæðisveseni og vinnuveseni.“

Róbert og Guðný áttu erfitt uppdráttar eftir bankahrunið á Íslandi …
Róbert og Guðný áttu erfitt uppdráttar eftir bankahrunið á Íslandi en í Danmörku leikur lífið við þau. Ljósmynd/Aðsend

Neitar Guðný því þó ekki að tímabilið á Íslandi eftir bankahrun hafi verið gefandi og eftirminnilegt að mörgu leyti. „En við fengum hvorugt vinnu við það sem við vorum búin að læra og það er mjög erfitt að búa á Íslandi þegar maður er búinn að prófa eitthvað annað eins og þú veist bara sjálfur [segir hún við blaðamann sem býr í Noregi]. Maður saknar margs frá Íslandi, en það er líka svo margt sem maður fær í staðinn,“ segir margmiðlunarhönnuðurinn.

Hún segir lífróðurinn mun léttari í Danmörku þar sem þau hjónin eigi þess auðveldlega kost að hafa þak yfir höfðum sér jafnvel þótt Róbert hafi verið atvinnulaus í eitt ár, en hann deyr þó ekki ráðalaus og rekur vefverslunina Gjøf Design sem áhugasamir geta kynnt sér með því að smella á tengilinn í nafninu.

Árið 2017 vendipunktur

Árið 2017 var viss vendipunktur hvað snertir ákvörðun hjónanna, sem áttu 15 ára brúðkaupsafmæli nú sumarið 2020, um að flytja aftur til Danmerkur. Erfitt áfall skall þá á fjölskyldunni, Guðný greindist með krabbamein í ristli í febrúar.

„Förum bara út aftur og tökum „þetta reddast“-hugarfarið á þetta, við fáum alla vega húsnæði þar,“ rifjar Guðný ákvörðunina upp. Fyrst gekkst hún þó undir krefjandi skurðaðgerð á Íslandi auk erfiðrar lyfjameðferðar vegna krabbameinsins, en þriðjungur ristils Guðnýjar var fjarlægður með skurði.

Ísabella Lind og Kristófer Valur Róbertsbörn. Þau búa með foreldrum …
Ísabella Lind og Kristófer Valur Róbertsbörn. Þau búa með foreldrum sínum í Glostrup. Ljósmynd/Aðsend

„Ég kláraði lyfjameðferðina haustið 2017,“ segir Guðný frá og rifjar upp mjög erfiðan tíma þegar henni voru færð tíðindin af sjúkdómnum. Voru þau þó ekki með öllu ill játar hún reyndar. „Ég var að vinna undir svo rosalega miklu álagi að ég get hreinlega sagt þér það í fullri hreinskilni að ég hugsaði „Jess, ég fæ frí í vinnunni!“ Ég var í algjörri kleppsvinnu í þjónustuverinu hjá Póstinum,“ segir margmiðlunarhönnuðurinn.

„Maður svaraði einum tölvupósti og það komu fjórir á meðan skilurðu? Þegar þú vinnur við svona lengi verðurðu bara hálfgeðveikur. Ég kom heim til mín og fannst ég vera búin að gleyma öllu og ekki ná að afkasta neinu. Maður var bara kominn við hliðina á sér af stressi,“ segir Guðný sem var svo greind með krabbamein ofan í allt álagið í vinnunni.

Höfðu uppi hótanir

„Auðvitað var maður að vinna með frábæru fólki,“ segir Guðný og ber samstarfsfólkinu á Póstinum vel söguna, „en álagið var þannig að ég var að kikna. Fólk hringdi alveg sótillt og sagði við mann „Pakkinn minn kom ekki, hvað ertu búin að gera við hann?!“ auk þess sem póstdreifingu utan höfuðborgarsvæðisins var breytt á þessum tíma og sjaldnar borið út,“ segir Guðný.

Fólk hafi jafnvel haft uppi hótanir og rifjar Guðný upp símtal þar sem óánægður viðskiptavinur öskraði á hana: „Þú getur ekkert svarað mér, þú býrð þarna í nafla alheimsins að því er þú heldur sjálf!“ og hafi þar verið átt við höfuðstaðinn Reykjavík hvort sem þar er á ferð nafli alheimsins eður ei.

Róbert heldur á Minervu Nótt afastelpu.
Róbert heldur á Minervu Nótt afastelpu. Ljósmynd/Aðsend

En aftur að krabbameininu, hvernig gekk þetta allt saman?

„Ég fór í þessa aðgerð þar sem tekinn var hluti af ristlinum og svo fannst í nokkrum eitlum líka svo ákveðið var að senda mig í lyfjameðferð sem ég fór í gegnum,“ segir Guðný og rifjar upp þegar henni var gengið um dimman dal árið 2017.

Meinið farið að dreifa sér

„Þetta var alveg gríðarlega erfitt. Róbert stóð eins og klettur við hlið mér og krakkarnir líka. Yngsti strákurinn var að verða fimm ára þarna og við tókum eiginlega bara ákvörðun strax um að við ætluðum ekki að fela neitt, engin leyndarmál og það yrði bara rætt um hlutina og spurningum svarað,“ segist Guðnýju frá þegar hún lítur til baka á myrka mánuði árið 2017.

Meinið hafi verið farið að dreifa sér og ekki mátt miklu muna, enginn veit hvernig farið hefði án þeirrar vel tímanlegu greiningar sem fékkst. „Ég slapp rosalega vel og fékk gríðarlegan styrk frá Ljósinu sem er endurhæfingarstöð fyrir fólk sem greinist með krabbamein, þar er ekkert nema frábært fólk að vinna, hvort sem þig vantar öxl að gráta á eða eitthvað til að dreifa huganum. Þarna er eiginlega bara samansafn af dásamlegasta fólki sem ég hef kynnst,“ segir hún.

Tilfinningarússíbaninn í þessu ferli hafi verið gríðarlegur, til dæmis hugsunin um að Guðný væri hugsanlega að yfirgefa þessa jarðvist vel innan við fimmtugt en hún er fædd árið 1973. „Ég man að þegar ég var á leið í aðgerðina helltist þetta bara yfir mig og ég lá bara og titraði og skalf og hugsaði um hvað gerðist ef ég vaknaði ekki aftur, hvernig börnunum ætti eftir að líða og þar fram eftir götunum,“ segir Guðný sem þó vaknaði á ný og sætir nú krabbameinseftirliti á sex mánaða fresti.

Starfsfólk Landspítalans frábært

Hún ber starfsfólki Landspítalans mjög vel söguna, allt ferlið hafi gengið ótrúlega vel. „Það er alltaf verið að drulla yfir heilbrigðiskerfið en fólkið sem er að vinna þar er bara ótrúlegt,“ segir Guðný og blaðamaður tekur heilshugar undir eftir tvo brjósklosuppskurði í Fossvoginum árið 2008 sem voru hreinlega með skemmtilegustu dögum sem hann hefur lifað enn sem komið er.

„Ég þurfti til dæmis að fara þarna með barn í miðju verkfalli og allir voru bara með bros á vör þrátt fyrir að maður vissi að fólkið hefði verið að vinna undir gríðarlegu álagi,“ rifjar Guðný upp með hlýju.

Guðný, Kristófer Valur og Ísabella Lind.
Guðný, Kristófer Valur og Ísabella Lind. Ljósmynd/Aðsend

Við ræðum heilbrigðismál áfram þrátt fyrir viðtal sem átti að snúast um jólahald erlendis, hvernig gengur í Danmörku í miðjum kórónuveirufaraldri?

„Þetta hefur verið mjög slæmt hérna, skólunum hjá krökkunum var lokað á undan áætlun, áður en lokað var annars staðar í landinu þar sem þetta voru svo mörg smit, til dæmis kennarinn hjá syni mínum og fjögur börn í bekknum hans,“ segir Guðný.

„Paranoja“ á Íslandi

Matvörubúðir og apótek séu opin en allar verslanir sem eru inni í verslunarmiðstöðvum og ekki með inngangi beint af götu lokaðar. Eins allir veitingastaðir nema til að sækja mat. „Svo núna á jóladag verður lokað fyrir nánast allt og ekki opnað aftur fyrr en í janúar.“

Hvernig stendur danska þjóðin sig í faraldrinum að mati Guðnýjar?

„Mér finnst þeir rólegri en það sem maður hefur séð í fréttum frá Íslandi þar sem manni finnst dálítil „paranoja“ í gangi. Róbert þurfti að fara til Íslands í nóvember og þá sagði fólk „Ja, ég vil nú ekkert vera að hitta þig ef þú kemur með þessa minkaveiru,“,“ segir hún, en þó hafi það ástand eingöngu verið á Jótlandi, langt frá þeim hjónum.

Fermingu Ísabellu Lindar hefur verið frestað fjórum sinnum vegna kórónuveirufaraldursins. …
Fermingu Ísabellu Lindar hefur verið frestað fjórum sinnum vegna kórónuveirufaraldursins. Vonandi reynist trú hennar næg til að fermast að lokum. Ljósmynd/Aðsend

Margir Danir séu þó farnir að fá nóg af ástandinu og heyrst hafi mótmælaraddir um ástandið og lokanirnar eins og víða annars staðar um heimsbyggðina. Önnur eldri dætranna megi til dæmis ekki koma og heimsækja foreldra sína vegna reglna um ferðalög milli landshluta í Danmörku sem þeim Róbert þyki eðlilega þungbært en þannig er það bara.

Að lokum hefst svo umfjöllun um jólahald í Danmörku.

„Danir eru náttúrulega einstaklega fastheldnir á hefðirnar sínar og þetta hefur verið rosalega erfitt, til dæmis bara að koma vörum milli staða og svo maður nefni annað trúartengt atriði er búið að margfresta fermingu dóttur okkar sem átti að fermast í apríl. Nú er búið að fresta henni alls fjórum sinnum,“ segir Guðný.

Þetta fer einhvern veginn

Þau Róbert verða með íslenskt lambalæri á borðum núna um jólin. „Við erum ekkert sérstaklega fastheldin á hvað við erum með um jólin, við höfum til dæmis verið með tapas-hlaðborð, þá fannst nú mörgum nóg komið,“ segir hún hlæjandi.

Lítið mál var að útvega lambið þrátt fyrir Covid-19 því í Kaupmannahöfn reka Íslendingur og Færeyingur íslenska verslun sem sér Íslendingum í Danmörku fyrir öllu því sem nauðsynlegt er til að halda sómasamleg jól.

Fjölskyldan saman komin í Glostrup. Frá vinstri: Nathalie, Höskuldur, Minerva, …
Fjölskyldan saman komin í Glostrup. Frá vinstri: Nathalie, Höskuldur, Minerva, Andrea Björk, Róbert, Kristófer og Ísabella Lind. Ljósmynd/Aðsend

„En lífið er bara ljúft og við horfum fram á nýtt ár með bjartsýni. Þegar öllu er á botninn hvolft fer allt einhvern veginn þótt margir efist um það á tímabili,“ segir Guðný og vitnar þar í Sjálfstætt fólk Nóbelsskálds þjóðarinnar.

„Svo langar okkur að nota tækifærið og senda öllum vinum og vandamönnum bestu óskir um gleðileg jól,“ segir Guðný Matthíasdóttir, margmiðlunarhönnuður í Glostrup í Danmörku, að lokum og lítur björtum augum fram á veginn um hátíðirnar. Þýðir nokkuð annað?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka