Kári og Þórólfur funda með Pfizer

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir munu funda saman með lyfjafyrirtækinu Pfizer til að ræða kaup á meira bóluefni fyrir íslensku þjóðina. Kári greinir frá þessu í færslu á Facebook.

Kári hefur átt í samskiptum við stjórnendur lyfjafyrirtækisins síðustu daga en Kára og Þórólf hefur greint á um hvaðan sú hugmynd er komin að bjóða Ísland fram sem rannsóknarsetur fyrir virkni bóluefnisins.

Í færslunni segir Kári að þeir Þórólfur eigi ekki í neinu stríði heldur vinni þeir eins náið saman og verkefnin kalla á. Þórólfur sé leiðtogi í baráttunni en Kári og hans fólk fái að leggja sitt af mörkum þegar við á. „Það voru mistök af minni hálfu að hafa Þórólf ekki með mér þegar ég hafði samband við Pfizer en hef mér það til varnar að því sambandi var komið á í gegnum samstarfsmenn mína í Bandaríkjunum og ég hafði litla stjórn á ferðinni,“ skrifar Kári.

Góðu fréttirnar séu þær að næsta fund með Pfizer muni hann og Þórólfur taka saman. Ef vel gangi geti Kári dregið sig í hlé að honum loknum og skilið verkefnið efir í höndum Þórólfs.

Þá segir hann Þórólf hafa stýrt landinu vel og ljúfmannlega í gegnum tíu mánaða faraldur og hann sé best til þess fallinn að beita bólusetningum til að koma þjóðinni endanlega úr honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert