Þeir fyrstu boðaðir í bólusetningu

Byrjað er að boða fólk í bólusetningu við Covid-19.
Byrjað er að boða fólk í bólusetningu við Covid-19. mbl.is/Hari

Þeir fyrstu sem verða bólusettir hér á landi hafa fengið boð í bólusetningu við Covid-19 á þriðjudaginn næstkomandi. Heimilisfólk verður bólusett inni á hjúkrunarheimilunum en framlínustarfsmenn fá smáskilaboð þar sem þeir eru boðaðir í bólusetningu. Þetta segir Óskar Reykdalsson í samtali við mbl.is.

„Það er búið að skipuleggja þetta allt saman. Við förum eftir forgangsröðun embættis landlæknis, fyrst er fólkið inni á hjúkrunarheimilunum og ákveðnir framlínustarfsmenn,“ segir Óskar.

Útlit er fyrir að flestir landsmenn verði boðaðir í bólusetningu með smáskilaboðum en kerfið er prufukeyrt á framlínustarfsmönnunum fyrst um sinn, að sögn Óskars, og út frá því metið hvernig boðuninni verður hagað fyrir stærstan hluta þjóðarinnar. „Þá getum við lagað, ef það eru einhverjir annmarkar á kerfinu,“ segir Óskar.

Hvað með fólk á tíræðisaldri sem er ekki inni á hjúkrunarheimilunum?

„Það fær bólusetningu samkvæmt forgangsröðun landlæknisembættisins,“ segir Óskar, en þeir einstaklingar falla undir 6. lið forgangslistans, þar sem kveðið er á um einstaklinga 60 ára og eldri. 

Reglugerð heilbrigðisráðherra um bólusetningar

mbl.is