Segir að illa gangi að fá svör um bóluefni

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/Hari

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir að illa hafi gengið að fá svör frá ríkisstjórninni um gengi Íslands í kaupum og viðræðum um bóluefni gegn kórónuveirunni. Hún segist vilja fá svör við því hvort Ísland sé í viðræðum á eigin forsendum við bóluefnaframleiðendur eða fylgi bara ESB eftir.

„Það var ein sérstök umræða um þetta í hasarnum rétt fyrir jólahlé en svörin voru nokkuð misvísandi,“ segir Helga Vala í samtali við mbl.is.

„Við óskuðum eftir því að það yrði fundað milli jóla og nýárs en því var hafnað. En við fengum það loforð frá heilbrigðisráðherra að velferðarnefnd fengi minnisblað í hendurnar um þessi mál. Ég vænti þess að í því minnisblaði séu skýr svör um ferlið allt og stöðuna framundan. Þó að veiran sé ófyrirsjáanleg þá verðum við að vita hvað stjórnvöld eru að gera.“

Helga segist vona að minnisblaðið skili sér í vikunni.

Slagkrafturinn í ESB meiri en í Íslandi einu

Helga segist hafa mikla trú á Evrópusambandinu en segist þó vilja vita hvort nágrannaþjóðir okkar og aðildarríki ESB séu sjálf í viðræðum við bóluefnaframleiðendur samhliða viðræðum ESB við sömu fyrirtæki.

„Ég held að samstarf okkar við ESB sé okkur alltaf til heilla. Ég held að við eigum að auka samstarf okkar við sambandið. Svo berast fréttir af því að ríki innan sambandsins séu hver fyrir sig að semja við framleiðendur bóluefna. Ef það er rétt þá hljótum við að spyrja okkur hvort við séum ekki að gera slíkt hið sama og það er það sem okkur vantar að fá svör við.“

Þá segir Helga jafnframt að slagkrafturinn í ESB sé meiri en á Íslandi einu og sér. Hún vill efla hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd á vettvangi Evrópusambandsins.

„Þær spurningar sem við viljum jafnframt fá svör við eru hvort t.a.m. við séum að gera þetta öðruvísi en Svíar og Danir? Hvernig er hagsmunagæsla okkar Íslendinga háttað þarna úti?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert