Hætta að innheimta mínútugjald

Verðskrá ON breytist á nýju ári.
Verðskrá ON breytist á nýju ári. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Orka náttúrunnar ætlar að hætta að innheimta mínútugjald á 50kW og 150kW hraðhleðslustöðvum og verður aðeins greitt fyrir kWst en áfram verður innheimt tímagjald upp á 0,5 krónur á mínútu, á 22kW hleðslum. Síðar á árinu mun ON setja tafagjald á bíla sem eru enn tengdir við hraðhleðslustöð eftir að hleðslu er lokið, að því er segir í fréttatilkynningu frá ON.

Orka náttúrunnar (ON) hóf að byggja upp hraðhleðslunet  fyrir rafbíla hringinn í kringum landið árið 2014 en síðan þá hefur hleðsluhegðun rafbílaeigenda og afkastageta hraðhleðslna og rafbíla breyst mikið samhliða fjölgun rafbíla.

Verðskrá hleðslunets ON hefur að sama skapi verið óbreytt frá upphafi en ný verðskrá sem tók gildi 1. janúar tekur mið af breyttri hleðsluhegðun íslenskra rafbílaeigenda og aukinni afkastagetu hleðslustöðva. Til þessa hefur verðskrá ON verið óhagstæðari fyrir eldri bíla sem þurft hafa lengri tíma til að hlaða, segir í fréttatilkynningu. 

Afsláttarkjör lækkuð í 20%

40% afsláttur af hleðsluneti ON, sem fyrirtækið hefur boðið viðksiptavinum sem kaupa jafnframt rafmagn til heimilisins verður lækkaður í 20%. Á móti kemur að viðskiptavinum ON sem nýta hleðslunet félagsins verður einnig veittur 10% afsláttur af notkun heimilisrafmagns. Kröfurnar eru þá eingöngu þær að einstaklingur tilheyri rafbílaheimili, þ.e.a.s. heimili í viðskiptum við ON ássamt því að vera með rafbíl og ON lykil.

Verðskrá fyrirtækisins frá 1. janúar 2021

Verð í 50kW og 150kW DC hraðhleðslustöðvar:

50kW DC: fullt verð 50kr/kWst.  Viðskiptavinir ON greiða: 40kr/kWst. með afslætti.

150kW DC: fullt verð 65kr/kWst. Viðskiptavinir ON greiða: 52kr/kWst. með afslætti. 

Verð í 22kW AC hleðslustöðvar:

22kW AC 25kr/kWst og 0,5 kr. gjald á mínútu. Viðskiptavinir ON greiða að meðaltali ca. 251kr.* fyrir hleðslu með afslætti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert