Fimm smit innanlands –12 á landamærunum

mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls greindust fimm með kórónuveirusmit innanlands í gær. Nú eru 127 í einangrun og 152 í sóttkví. Bæði hefur fjölgað í þeim hópi sem er í einangrun og í sóttkví á milli daga. Allir þeir sem greindust með Covid-19 innanlands í gær voru í einkennasýnatöku. Af þeim voru tveir í sóttkví eða 40%. 

Mikil fjölgun er meðal fólks í skimunarsóttkví og eru nú 2.532 einstaklingar í slíkri sóttkví.  Alls greindust 12 með staðfest Covid-19-smit á landamærunum í gær og sex bíða niðurstöðu mótefnamælingar. Daginn áður greindust sex með Covid á landamærunum en einn var með mótefni.

Tæplega 800 sýni voru tekin innanlands í gær og svipaður fjöldi á landamærunum. 

Nú eru 20 á sjúkrahúsi sem hafa greinst með veiruna en ekki kemur fram á covid.is hvort einhver sé með virkt smit. Enginn er á gjörgæslu vegna Covid-19. 

Nýgengi smita miðað við 100 þúsund íbúa er nú 18,8 innanlands en 21,3 við landamærin. 

Tveir einstaklingar eru í einangrun á Norðurlandi eystra en landshlutinn hefur verið án smits í einhvern tíma. Þar eru einnig tveir í sóttkví. Á höfuðborgarsvæðinu eru 89 í einangrun og 102 í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 17 bæði í sóttkví og einangrun. Á Suðurlandi eru fjögur smit og 23 í sóttkví. Á Vestfjörðum eru smitin tvö talsins og einn í sóttkví. Á Vesturlandi eru fjögur smit og þrír í sóttkví. Óstaðsettir í hús eru átta með Covid-19 og fjórir í sóttkví.

Smitin eru flest í aldurshópnum 18-29 eða 50. Eitt barn á aldrinum 1-5 ára er með Covid og fjögur börn á aldrinum 6-12 og sami fjöldi í aldurshópnum 13-17 ára. Á fertugsaldri eru 27 smit og 14 meðal fólks á fimmtugsaldri. Smitin eru 17 hjá aldurshópnum 50-59 ára og sjö hjá 60-69 ára. Tveir einstaklingar á áttræðisaldri eru með Covid-19. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert