Jóhannes í Postura dæmdur fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson, sem jafnan er kenndur við Postura, hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað fjórum konum á meðferðarstofu sinni. Um nokkurra ára gömul mál er að ræða en brotin eru talin hafa átt sér stað á tímabilinu 2009 til 2015. 

Er Jóhannes sagður hafa haft samræði við konurnar án þeirra samþykkis. Í dómnum segir að hann hafi beitt konurnar ólögmætri nauðung. Dómur þess efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í dag, en dómurinn verður birtur á vef dómstóla fljótlega. Jóhannes rak fyrirtækið Postura þar sem hann meðhöndlaði fólk sem glímdi við stoðkerfiskvilla. 

Telur að dómnum verði snúið

Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar, staðfestir í samtali við mbl.is að dómnum verði áfrýjað. Þá undrist hann mjög dóminn. „Það eru engar sannanir og þetta er ekkert annað en orð gegn orði. Það verður tekist á um þetta fyrir Landsrétti, það er að segja hvort þetta sé nóg til að sakfella hann.“

Aðspurður segist hann ekki eiga von á öðru en Landsréttur snúi dómnum. Um fimmtán konur kærðu Jóhannes upphaflega til lögreglu, en rannsókn lögreglu leiddi til þess að ákært var í fjórum tilvikum. Í einhverjum tilvikum var Jóhannes sakaður um að fara með hönd sína inn að kynfærum skjólstæðinga sinna. 

mbl.is