Tuborg jólabjór var í sérflokki

Tuborg jólabjór.
Tuborg jólabjór.

Sala á jólabjór frá Tuborg naut mestra vinsælda þeirra jólabjóra sem Vínbúðirnar hafa boðið upp á síðan í nóvember og var annar hver seldur jólabjór þeirrar tegundar. Í Vínbúðunum höfðu í gær verið seldir 1.177 þúsund lítrar af jólabjór og er salan 58% meiri en á sama tíma í fyrra, en þá seldust alls um 744 þúsund lítrar, samkvæmt upplýsingum frá Vínbúðunum. Sölutímabilið fyrir nýliðin jól byrjaði viku fyrr en fyrir ári.

Tuborg julebryg var með tæplega 50% af sölunni í kringum jólin eða tæplega 588 þúsund lítra. Næst kemur Víking jólabjór með um 118 þúsund lítra eða 10% af seldu magni og jólabjórinn frá Thule er í þriðja sæti með með tæplega 68 þúsund lítra eða 5,75%.

Alls voru á boðstólum 60 tegundir af íslenskum jólabjór, 88 tegundir alls og hefur framboðið aldrei verið meira en í ár. Nokkrar tegundir voru aðeins til sölu í tiltölulega litlu magni og seldust sumar þeirra upp. Eitthvað er enn til af jólabjór og verður svo fram eftir mánuðinum.

Þorrabjórinn tekur við af jólabjórnum og er von á 17 tegundum af þorrabjór í Vínbúðirnar, þremur fleiri en í fyrra. Sala á honum hefst 14. janúar sem er viku fyrr en venjulega. Helsta ástæða þess er að Vínbúðirnar hafa fengið margar fyrirspurnir frá viðskiptavinum sem vilja tryggja sér þorrabjór í tíma fyrir bóndadaginn, 22. janúar. Svo er spurning hvernig þorrablótin verða haldin og hvenær. aij@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert