Aðgerðir Póstsins hafa áhrif á staðbundin fyrirtæki

Eigendur staðbundinna flutningafyrirtækja verða fyrir áhrifum af ákvörðun stjórnvalda og …
Eigendur staðbundinna flutningafyrirtækja verða fyrir áhrifum af ákvörðun stjórnvalda og Póstsins. mbl.is/ÞÖK

Aðgerðir póstsins, í kjölfar breytinga á heildarlögum um póstþjónustu sem tóku gildi í byrjun síðasta árs, hafa leitt til þess að skerða samkeppnishæfni smærri staðbundinna flutningafyrirtækja á landsbyggðinni. Þetta hefur Viðskiptablaðið eftir tveimur forsvarsmönnum flutningafyrirtækja á Suðurlandi í umfjöllun sinni um þessi mál.

Áður hafði Pósturinn einkarétt á dreifingu bréfa og var þá skylt að sinna alþjónustu upp að dreifingu á bögglum upp að 20 kg. Eftir breytinguna var einkarétturinn felldur niður og alþjónustan miðuð við 10 kg.

Í umfjölluninni Viðskiptablaðsins er farið yfir þær breytingar sem samþykktar voru á Alþingi sumarið 2019 og tóku gildi áramótin eftir. Hafði meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar gert þá breytingu milli fyrstu og annarrar umræðu að bréfasendingar ættu að standa öllum landsmönnum til boða á sama verði. Var vísað til jafnræðis og byggðasjónarmiða.

Pósturinn ákvað í kjölfarið að lækka verð á dreifingu í dreifðari byggðum, þar sem jafnframt er dýrara að sinna þjónustu,  frekar en að hækka verð á höfuðborgarsvæðinu og þar með líklega verðleggja sig út af markaðinum.

Viðskiptablaðið ræðir við Vigfús Pál Auðbertsson, sem rekur flutningaþjónustu í Vík sem er með dreifisvæði frá Markarfljóti að Kirkjubæjarklaustri og Þórð Jónsson sem rekur flutningafyrirtæki á Hvolsvelli, en dreifisvæði þess er þaðan að Markarfljóti. Nefna þeir ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar að veita Póstinum bætur fyrir þjónustu á „óvirkum markaðssvæðum“ sem var flokkað sem allir þéttbýlisstaðir með undir 750 heimilum og dreifbýli. Segja þeir báðir að lítil flutningafyrirtæki á landsbyggðinni verði fyrir barðinu á ákvörðun stjórnvalda og Póstsins og að með þessu sé Póstinum veitt forskot á samkeppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert