Hæstiréttur hafnar að taka fyrir nauðgunarmál af Þjóðhátíð

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni  ríkissaksóknara í máli þar sem karlmaður hafði verið sakaður um nauðgun á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2016. Héraðsdómur Suðurlands hafði áður dæmt manninn í þriggja ára fangelsi, en Landsréttur sýknað manninn í fyrra.

Ríkissaksóknari taldi dóm Landsréttar rangan, bæði hvað varðar form og efni og vísaði til þess að Landsréttur hafi litið framhjá atriðum varðandi ákæruefnið.

Ákært var í málinu vegna nauðgunar, en maðurinn og konan höfðu hafið samræði með vilja beggja. Hins vegar var maðurinn ákærður fyrir að beita konuna ofbeldi, eiga við hana endaþarmsmök og svo aftur stuttu síðar, á grasbala stutt frá því tjaldi sem þau höfðu upphaflega farið í, aftur átt við hana samræði. Var þetta allt sagt án samþykkis konunnar. Hlaut konan meðal annars ýmsa áverka vegna þessa.

Sem fyrr segir dæmdi héraðsdómur manninn í þriggja ára fangelsi, en Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að í ljósi þess að þau væru tvö ein til frásagnar, maðurinn hefði verið stöðugur í framburði sínum um sakleysi sitt og konan hafi ekki gefið haldbæra skýringu á því af hverju hún sendi manninum ekki skilaboð um að hún væri mótfallin verknaðinum. Var hann því sýknaður fyrir Landsrétti.

Ríkissaksóknari vísar í málsskotsbeiðninni meðal annars til þess að ekkert hafi verið fjallað um líklegar ástæður þess að konan hafi strax í kjölfar kynmakanna verið í greinilegu áfalli né um þá áverka sem sáust við skoðun á henni strax eftir atvikið. Þá segir ríkissaksóknari að tilvist áverkanna sé í mun meira samræmi við framburð konunnar en mannsins. Þá sé ekki lagt mat á sönnunargildi framburðs konunnar þótt hún hafi margsinnis greint frá með sama hætti frá atvikum.

Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að út frá gögnum málsins verði „hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlasun Hæstaréttar.“ Segir jafnframt að niðurstaða Landsréttar byggi fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, en það mat verði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti. Því sé beiðninni hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert