Ólafsson fær tvenn alþjóðleg hönnunarverðlaun

Íslenska ginið Ólafsson hefur fengið góðar viðtökur.
Íslenska ginið Ólafsson hefur fengið góðar viðtökur. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska ginið Ólafsson fékk í byrjun janúar fyrstu verðlaun í umbúðakeppni Beverage Testing Institute. Keppnin hófst árið 1981 og er elsta alþjóðlega vínsmökkunarkeppni Bandaríkjanna. Síðar bættist við smökkun á sterkum drykkjum, bjór og verðlaun fyrir umbúðahönnun.

Þetta er önnur viðurkenningin fyrir hönnun sem Ólafsson fær á stuttum tíma því flaskan fékk gullverðlaun í árlegri hönnunar- og umbúðaúttekt fagmiðilsins SpiritsBusiness í desember. Innihaldið hefur einnig verið verðlaunað, því síðan Ólafsson kom á markað í mars í fyrra hefur ginið fengið tvenn gullverðlaun í virtum alþjóðlegum bragðprófunum.

Í þriðja sæti yfir mest selda ginið

Viðtökur hér á landi hafa verið einnig framar vonum, að sögn Arnars Jóns Agnarssonar, framkvæmdastjóra Eylands Spirits, framleiðanda Ólafsson. Ginið er komið í þriðja sæti yfir seldar flöskur af gini í Vínbúðunum og eru bara risarnir Beefeater og Tanqueray ofar á sölulistanum fyrir desember. 

„Við erum í skýjunum, ekki síst hversu vel íslenskir ginunnendur hafa tekið okkur. Við vissum ekkert á hverjum við máttum eiga von þegar við fórum af stað nánast upp á sama dag og covid var að nema land hér og leggja undir sig heiminn,“ segir Arnar í tilkynningu og bætir við: „Við vissum að við vorum með topp vöru í höndunum, en þetta ástand riðlaði nánast öllum plönum.“

Bandarískir hönnuðir 

Arnar segir að íslenskar jurtir og vatn sé uppistaðan í Ólafsson en að öðru leyti sé verkefnið að stórum hluta fjölþjóðlegt. „Fjármögnunin kemur að miklu leyti að utan, við fengum enskan ginsnilling til að þróa uppskriftina með okkur og það eru bandarískir hönnuðir sem gerðu flöskuna,“ segir hann.

Flaskan og merkingar á henni voru hannaðar hjá bandaríska fyrirtækinu The Rooster Factory, sem sérhæfir sig í umbúðahönnun fyrir áfengi og er staðsett í Pasadena í Kaliforníu.  Ólafsson heitir í höfuðið á 18. aldar skáldinu og náttúrufræðingnum Eggerti Ólafssyni en teikning af honum ásamt myndum úr náttúru Íslands eru í aðalhlutverki á merkingum á flösku ginsins.

mbl.is