Andlát: Svavar Gestsson

Svavar Gestsson.
Svavar Gestsson. mbl.is/Golli

Svavar Gestsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, formaður Alþýðubandalagsins, þingmaður, ráðherra og sendiherra, lést á gjörgæsludeild Landspítalans aðfaranótt 18. janúar. Svavar fæddist á Guðnabakka í Stafholtstungum 26. júní 1944, sonur hjónanna Guðrúnar Valdimarsdóttur og Gests Sveinssonar. Svavar var elstur átta systkina.

Svavar ritstýrði Þjóðviljanum á árunum 1971-1978, settist á þing fyrir Alþýðubandalagið 1978 og var ráðherra í þremur ríkisstjórnum, viðskiptaráðherra 1978-1979, félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1980-1983 og menntamálaráðherra 1988-1991. Svavar lét af þingmennsku 1999 og gerðist sendiherra til ársloka 2009. Svavar skrifaði tvær bækur, Sjónarrönd, jafnaðarstefnan – viðhorf árið 1995 og sjálfsævisöguna Hreint út sagt árið 2012. Svavar ritstýrði tímaritinu Breiðfirðingi 2015-2019. Auk þess skrifaði Svavar ótal greinar í blöð og tímarit, aðallega um stjórnmál.

Eftirlifandi eiginkona Svavars er Guðrún Ágústsdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Börn Svavars eru Svandís, Benedikt og Gestur og börn Guðrúnar eru Ragnheiður, Árni og Gunnhildur.

mbl.is