Hvergi í Evrópu séu umsvif ríkisins meiri

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala ríkisins á Íslandsbanka hefur með einum eða öðrum hætti verið á dagskrá allra ríkisstjórna sem starfað hafa frá efnahagshruninu haustið 2008 að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Hann segir það aldrei hafa verið markmiðið til lengri tíma að meiri hluti íslensk bankakerfis sé á forræði og á áhættu ríkisins. 

Þetta kom fram í máli Bjarna á Alþingi í dag þar sem hann flutti munnlega skýrslu um sölu ríkisins á hluta í bankanum. 

„Þann 18. desember síðastliðinn féllst ég á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Áður hafði málið verið rætt á vettvangi ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og kynnt í ríkisstjórn. Greinargerð þess efnis var lögð fyrir nefndir þingsins í samræmi við áskilnað í lögum og hafa fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd haft málið til umfjöllunar,“ sagði Bjarni. 

Bankasýslu ríkisins var komið á fót með lögum árið 2009 í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Bankasýslan fer nú með eignarhald ríkisins á Íslandsbanka, Landsbankanum og Sparisjóði Austurlands í samræmi við lög um Bankasýslu ríkisins og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma. 

„Í lögum segir m.a. að Bankasýslan skuli í starfsemi sinni leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði. Um sölumeðferðina gilda lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum en þau lög voru samþykkt hér á Alþingi árið 2012. Fyrir þeim mælti Oddný Harðardóttir sem þá gegndi starfi fjármálaráðherra.

„Það ferli sem við ræðum hér hófst í desember síðastliðnum og er, eins og hér hefur verið rakið, að öllu leyti í samræmi við ákvæði þeirra laga sem sett voru árið 2012, hvort sem varðar umgjörð, tímalínu, umsagnarfresti eða önnur atriði,“ sagði Bjarni. Það sé því beinlínis bundið í lög að losa beri um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni og dreifðri eignaraðild. Söluáformin komi ekki aðeins fram í gildandi lögum heldur komi þau einnig fram í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og auk þess hafa þau staðið í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar.

Þurfi að leita til Kína eða Norður-Kóreu til að finna viðlíka eignarhald

Bjarni sagði stöðu Íslandsbanka vera sterka, bæði fjárhagslega og efnahagslega. 

„Eðlilegt er hins vegar að spurt sé hvaða áhrif kórónuveirufaraldurinn geti haft á verðmat banka almennt og við hvaða almennu markaðsaðstæður sé verið að huga að skráningu bankans á markað. Í því sambandi má líta til þess að hlutabréf í evrópskum bönkum hafa hækkað mjög verulega á undanförnum mánuðum,“ sagði Bjarni. 

„Þrátt fyrir þá góðu stöðu sem hér hefur verið lýst má þó ekki gera ráð fyrir að Íslandsbanki, með þá sterku stöðu sem hann hefur, verði áfram einhvers konar stöðug uppspretta stórra arðgreiðslna til ríkisins til lengri tíma verði hann ekki seldur. Hér ber að hafa í huga að fram til ársins 2016 var arðsemi samkvæmt uppgjöri viðskiptabankanna verulega umfram arðsemi af reglulegum rekstri. Arðsemina mátti hins vegar að stærstum hluta rekja til jákvæðra virðisbreytinga en ljóst er að tímabil slíkra umframarðgreiðslna er liðið,“ sagði Bjarni. 

„Það sem er að breytast fyrir fjármálafyrirtækin, ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega, er einfaldlega samkeppnisumhverfi þeirra. Samhliða örri tækniþróun og tilkomu fjártæknifyrirtækja þurfa bankar að vera stöðugt á tánum til að verða einfaldlega ekki undir. Ég held að ríkið sé hvorki vel til þess fallið að leiða þá þróun sem fram undan er né til að bera áhættuna af því sem fylgir þessum miklu breytingum. 

„Ég held að það fari betur á því að aðrir undirbúi og leiði, sem nýir eigendur í fjármálakerfinu, þessa nýju tíma sem við okkur blasa, enda er það svo að hvergi annars staðar í Evrópu eru umsvif ríkisins á bankamarkaði nærri því jafn hlutfallslega mikil og hér á landi. Raunar þarf að leita alla leið til ríkja á borð við Kína, jafnvel Norður-Kóreu, til að finna viðlíka eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Hér má hafa í huga að eignarhald ríkisins verður enn verulegt í alþjóðlegum samanburði, jafnvel þegar búið verður að selja Íslandsbanka í heild sinni,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert