„Ristaðu brauðið, ekki brenna það“

Í dag settu forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid lestrarkeppni á milli grunnskóla sem gengur út á að lesa setningar inn á vefinn samrómur.is. Upptökurnar verða svo notaðar til þess að kenna tölvum og tækjum að skilja íslenska tungu.

Þau Guðni og Eliza eru verndarar verkefnisins sem var sett í Fellaskóla í dag og forsetinn segir miklvægt að geta talað við snjalltæki af ýmsu tagi á íslensku og tók dæmi úr hversdagslífinu. „Við verðum að geta sagt við brauðristina: Ristaðu brauðið, ekki brenna það eins og í gær.“

Þetta er í annað skipti sem keppnin er haldin en markmiðið er að safna 500 þúsund lesn­um setn­ing­um fyrir Samróm. 200 þúsund frá full­orðnum, 200 þúsund frá 18 ára og yngri og 100 þúsund sýn­um frá þeim sem hafa ís­lensku sem annað mál. Viðtökur við síðustu lestrarkeppni fóru fram úr björtustu vonum. Alls tóku 1430 manns þátt fyrir hönd 130 skóla og lásu í kringum 144 þúsund setningar.

Þó keppnin sé á milli grunnskóla eru allir hvattir til að lesa inn á samróm.is. Hægt er að fylgjast með keppninni hér en fjölmargir skólar eru þegar byrjaðir að skrá inn lestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert