„Frekar svona óhefðbundin“ hegðun á vettvangi

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Atlaga Ragnars Sigurðar Jónssonar að eiginkonu sinni var stórhættuleg og honum hlaut að vera ljóst að langlíklegast væri að hún myndi leiða til dauða. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 13. janúar en Ragnar var dæmdur í 14 ára fangelsi fyr­ir að verða eig­in­konu sinni að bana á heim­illi þeirra í mars í fyrra.

Ragnar neitaði sök en þinghald í málinu var lokað og var dómurinn birtur á vef dómstólsins fyrr í dag. Verjandi hans hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar.

Sagðist hafa fundið hana látna í sófanum

Sjálfur sagði Ragnar að þau hjónin hefðu horft á sjónvarp og drukkið áfengi föstudagskvöldið 27. mars. Hann kvaðst ekki muna hversu lengi en allt í einu fór hann í „blackout“ og mundi síðast eftir sér sitjandi í sófanum að horfa á sjónvarpið.

Mögulega hefði hann rumskað um morguninn eða í hádeginu á laugardeginum en vaknað almennilega síðla dags. Hann sagðist hafa kallað ítrekað til eiginkonunnar, sem svaf á öðrum sófa í stofunni en ekkert svar fengið. Í kjölfarið hefði hann komið að eiginkonu sinni látinni í sófa í stofunni. Í framhaldinu hringdi hann í börn sín.

Dóttir hjónanna sagði fyrir dómi að hún hefði fengið símtal frá föður sínum 28. mars í fyrra og strax heyrt að eitthvað var að. Þegar dóttirin og maður hennar komu til foreldra hennar sagði faðir hennar þeim að móðirin væri dáin.

Dóttirin hringdi í kjölfarið í Neyðarlínuna en hún sagði að ekki hefði komið fram hjá föður hennar hvernig andlátið bar að höndum. Hann hefði einungis sagt að hann hefði fundið hana látna í sófanum.

Var alveg ofan í lækni á vettvangi

Lögreglu barst tilkynning vegna málsins klukkan 18:40 og staðfesti andlát 19:24. Rannsóknarlögreglumaður á vettvangi sagði að hegðun Ragnars á vettvangi hefði verið „frekar svona óhefðbundin“. Læknir fékk lítinn frið til að athafna sig því Ragnar var alveg ofan í honum, var talsvert á hrefyingu og fékk sér mikið vatn að drekka.

Niðurstaða læknis var óljós og í framhaldi var farið fram á réttarkrufningu. Í fyrstu svaraði Ragnar því til að „við þurfum ekkert að vita af hverju hún lést“ en lét undan eftir þrýsting barns þeirra og heimilaði krufningu.

Þremur dögum síðar sagði réttarmeinafræðingur að andlát konunnar hefði mjög líklega orðið af völdum annars manns og í kjölfarið var Ragnar handtekinn.

Niðurstaða réttarkrufningar var sú að sterklega benti til að dánarorsök hefði verið þrýstingur um hálsinn og svo köfnun. Réttarmeinafræðingur taldi sjáanleg meiðsl líta þannig út að allt benti til að um væri að ræða afleiðingar ofbeldis annars einstaklings. Niðurstaða þriggja réttarmeinafræðinga var að dánarorsökin væri kyrkingartak annars manns.

Bar fyrir sig minnisleysi

Í niðurstöðu dóms er litið til þess að framburður Ragnars á vettvangi var ólíkur framburði hans hjá lögreglu og síðar fyrir dómi.

Á vettvangi sagðist hann hafa vaknað ásamt eiginkonu sinni um morguninn og síðan lagt sig í sófanum í hádeginu. Síðar hafi hann vaknað og séð eiginkonu sína hreyfingarlausa í sófanum.

Síðar bar hann fyrir sig minnisleysi þar til hann hefði vaknað seinni hluta laugardags.

Ragnari hefur ekki verið gerð refsing áður og því þótti dómi 14 ára refsing hæfileg. Hann var dæmdur til að greiða rúmar 1,5 milljónir króna í sakarkostnað auk þóknun verjanda.

mbl.is