Íbúar landsins verði 445 þúsund

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagstofa Íslands hefur endurskoðað mannfjöldaspá fyrir tímabilið 2020-2069. Endurskoðuð miðspá áætlar að íbúar landsins verði 445 þúsund árið 2069, í háspánni er reiknað með að íbúar verði 527 þúsund í lok spátímabilsins en 370 þúsund samkvæmt lágspánni. Engar breytingar verða á áætlaðri meðalævi landsmanna í endurskoðaðri spá miðað við spá sem birt var í desember 2020. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Endurskoðunin felst í því að gert var nýtt líkan fyrir búferlaflutninga erlendra ríkisborgara til að bæta aldursdreifingu mannfjöldans yfir spátímabilið. Nýtt líkan tekur mið af komu til landsins, dvalartíma og aldri og tekur áætlaður brottflutningur erlendra ríkisborgara frá landinu nú mið af þeim atriðum.

Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands felur í sér framreikning á mannfjölda fyrir tímabilið 2020-2069 á grundvelli tölfræðilíkana fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni. Birt eru þrjú afbrigði af framreikningnum, þ.e. miðspá, háspá og lágspá, sem byggjast á mismunandi forsendum um hagvöxt til næstu fimm ára, frjósemishlutfalli og búferlaflutningum. Auk þess sýnir spáin þróun og samsetningu mannfjöldans á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert