Umdeildi sendiherrann kveður

Jeffrey Ross Gunter.
Jeffrey Ross Gunter. mbl.is/Sigurður Bogi

Jef­frey Ross Gun­ter, sendi­herra Banda­ríkj­anna á Íslandi, hefur látið af störfum en hann greinir frá því í ávarpi á facebook-síðu sendiráðsins. Þar þakkar hann meðal annars Donald Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, fyrir „ótrúlegt tækifæri“.

Gunter segist hafa myndað tengsl við íbúa og ríkisstjórn Íslands og þannig hafa náð mörgum af sínum markmiðum.

„Guð blessi ykkur öll og takk Trump forseti fyrir þetta ótrúlega tækifæri,“ sagði sendiherrann í kveðjuávarpinu.

Gunter tók við embætti sendiherra í júlí 2019 en þá hafði staðan verið laus frá janúarmánuði 2017. 

Gun­ter er menntaður húðlækn­ir og hafði starfað sem slík­ur í yfir ald­ar­fjórðung. Hann hef­ur einnig tekið þátt í störf­um re­públi­kana­flokks­ins og verið formaður banda­lags gyðinga inn­an flokks­ins.

Hann var talsvert gagnrýndur síðastliðið sumar þegar sendiherrann endurtísti skilaboðum frá Trump þar sem fjallað var um baráttu við „ósýnilega Kínaveiru“. 

Enn fremur fjallaði bandaríska fréttastöðin CBS ítarlega um Gunter þar sem hann var meðal annars sagður vilja bera skotvopn enda teldi hann öryggi sínu ógnað hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert