Aukið svigrúm með Eiríksstöðum

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Landspítalinn - Þorkell

„Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is. Spítalinn tók í dag á ný við 3.400 fermetra húsnæði að Eiríksgötu 5 en því hefur verið breytt undanfarið ár til að hýsa fjölbreytta klíníska starfsemi á vegum Landspítala og efla þjónustu spítalans með margvíslegum hætti.

Ráðgert er komur í húsið verði, þegar það er komið í fulla virkni, tæplega 300 á dag og um 60 þúsund á ári.

„Við erum að skapa svigrúm fyrir þverfaglegar nútímalegar göngudeildir þar …
„Við erum að skapa svigrúm fyrir þverfaglegar nútímalegar göngudeildir þar sem hægt er að taka við og styðja fólk.“ Ljósmynd/Landspítalinn - Þorkell

Sérhæfð rými fyrir starfsemina

Páll segir að þörf hafi verið á þessu svæði og svigrúminu sem myndast en hinir nýju Eiríksstaðir munu meðal annars hýsa göngudeildarþjónustu fyrir gigtarsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, erfðaráðgjöf, augnsjúkdóma, skimun og greiningu krabbameins og sérstaka brjóstamiðstöð ásamt nýrri sameiginlegri innskriftamiðstöð Landspítala. Á Eiríksstöðum eru sérhæfð rými fyrir þessa starfsemi, til dæmis skurðstofur, röntgenstofur, skimunaraðstaða, skoðunarrými og viðtalsherbergi.

„Þetta hófst með samþykki heilbrigðisráðherra fyrir því að við leigðum annað húsnæði fyrir skrifstofur haustið 2018. Síðan fluttu skrifstofurnar í Skaftahlíð 24 í ágúst 2019 og þá var farið á fullt að umbreyta þessu húsnæði Eiríksstöðum og því er lokið. Við erum mjög ánægð með þetta,“ segir Páll.

Ráðgert er komur í húsið verði, þegar það er komið …
Ráðgert er komur í húsið verði, þegar það er komið í fulla virkni, tæplega 300 á dag og um 60 þúsund á ári. Ljósmynd/Landspítalinn - Þorkell

Göngudeildarþjónusta við konur

Í húsinu mun gefast tækifæri til að þróa samvinnu milli sérgreina og faghópa. Þar stendur sömuleiðis til að efla til muna fjarheilbrigðisþjónustu, sem er hluti af framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu á 21. öld. Á Eiríksstöðum verður heildstæð göngudeildarþjónusta við konur með krabbamein í brjósti, allt frá skimun til eftirlits eftir meðferð, en skurðaðgerðir og geislameðferð verða áfram á öðrum stað í Landspítalaþorpinu við Hringbraut.

„Þannig að þetta er allt saman hið besta mál. Við erum að skapa svigrúm fyrir þverfaglegar nútímalegar göngudeildir þar sem hægt er að taka við og styðja fólk,“ segir Páll, sem er ánægður með Eiríksstaði:

„Eins ótrúlegt og það kann að hljóma miðað við fermetrafjölda spítalans er þá voru göngudeildir að springa. Því er gríðarlega mikilvægt að geta flutt þetta hingað. Síðan er þetta á Hringbrautarsvæðinu sem skiptir auðvitað líka máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert