Dæmdir fyrir skattsvik fyrir 12 árum

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir karlmenn hafa verið fundnir sekir um að hafa hvor ekki ekki gert grein fyrir 49 milljón króna arðgreiðslu og þannig komist undan að greiða hvor 4,9 milljónir í fjármagnstekjuskatt vegna arðútgreiðslu á rekstrarárinu 2008. Var þeim báðum gert að greiða tvöfalda upphæð í fésekt, eða um 9,8 milljónir. Féll dómurinn í Héraðsdómi Suðurlands í síðustu viku.

Tengist málið rekstri Byggingarfélagsins Grettis, en það sá meðal annars um smíði sumarhúsa og sölu sumarhúsalóða. Voru mennirnir ákærðir fyrir að hafa ekki staðið skil á fjármagnstekjuskatti upp á 16,6 milljónir fyrir 166,5 milljón króna arðgreiðslu á árunum 2008 og 2009.

Fyrir dómi sögðu mennirnir að ekki hefði verið um útgreiðslu á þessum fjármunum að ræða, heldur afsal á lóðum og þær hafi verið yfirverðmetnar. Þá sögðust þeir lítið hafa komið að rekstrinum þó þeir væru eigendur félagsins, en að kona ein sem er vitni í málinu hafi séð um öll fjármál og bókhald þess. Þeir vissu ekkert um bókhald og vísaði annar þeirra meðal annars til þess að hann væri lesblindur og með athyglisbrest og hefði verið ráðlagt að skipta sér ekki af bókhaldinu. Mennirnir voru engu að síður skráðir sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri og voru með prókúru.

Um mitt árið 2009 var félagið svo selt tveimur konum, en í skýrslutöku könnuðust þær ekki við kaupin eða undirskrift sína á pappírum varðandi eignaskiptin. Þá kom heldur ekki fram hver eignarhlutur kvennanna átti að vera og þær sögðust ekki þekkja fyrri eigendur.

Konan sem sá um rekstur félagsins var eini starfsmaður þess. Hún sagði fyrir dómi að þegar kom að arðgreiðslunni hafi ákærðu meðal annars gefið henni fyrirmæli um að greiða ekki staðgreiðslu af fjármagnstekjunum.

Í dóminum eru mennirnir fundnir sekir um að hafa komið sér undan að greiða fjármagnstekjuskatt, en þar sem þeir hafi ekki lengur verið skráðir í stjórnunarstöðu þegar skattframtölum fyrir árið 2009 var skilað eða þegar arður var greiddur út fyrir árið 2009, þá eru þeir ekki sakfelldir fyrir hluta brotanna.

Af þeim sökum eru þeir fundnir sekir um að hafa komist hjá því að greiða hluta upphæðarinnar í fjármagnstekjuskatt og eru þeir dæmdir til að greiða hvor tvöfalda þá upphæð í sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert