Jóna Þórey gefur kost á sér í Suðvesturkjördæmi

Jóna Þórey Pétursdóttir, fyrrverandi forseti stúdentaráðs Háskóla Íslands, gefur kost …
Jóna Þórey Pétursdóttir, fyrrverandi forseti stúdentaráðs Háskóla Íslands, gefur kost á sér á lista hjá Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Aðsend

Jóna Þórey Pétursdóttir, fyrrverandi forseti stúdentaráðs Háskóla Íslands, ætlar að gefa kost á sér á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Í tilkynningu segir Jóna að hún gefi kost á sér í forystusveit í kjördæminu, en hægt er að tilnefna fólk á lista flokksins í kjördæminu til 29. janúar.

Segir hún í tilkynningunni að mikilvægt sé fyrir ungt fólk að hafa málsvara í forystusætum á framboðslistum sem taki virkan þátt í pólitík.

Vísar Jóna sérstaklega til málefna stúdenta, hamfarahlýnunar og velferðamálefna sem áherslumála hjá sér.

„Sem forseti stúdentaráðs tók ég þátt í skipulagningu loftslagsverkfallanna á Íslandi og beitti mér fyrir raunverulegum aðgerðum í loftslagsmálum. Ég vil halda áfram þeirri baráttu sem þingkona og vel Samfylkinguna vegna þess að hún er sá stjórnmálaflokkur sem er tilbúinn að gera það sem þarf til að hefja kraftmikla græna uppbyggingu á Íslandi. Með reynsluna af hagsmunabaráttu stúdenta í farteskinu er ég líka sannfærð um að hagsmunum námsfólks sé best borgið með Samfylkinguna í forystu og ungu fólki í leiðandi hlutverki. Stjórnvöld hafa hvorki brugðist við ákalli ungs fólks um aukið afkomuöryggi og bætt kjör, né þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir vegna hamfarahlýnunar. Á næsta kjörtímabili stefnir í endurskoðun á nýjum lögum um Menntasjóð námsmanna og þar er verk að vinna. Þá er ljóst að velferðarkerfið er götótt og fjöldi fólks á öllum aldri lendir milli skips og bryggju. Vilji Samfylkingarinnar til að gera betur í velferðarmálum er áþreifanlegur og þessum málstað þarf að halda á lofti. Leiðarljós jafnaðarstefnunnar duga best til að skapa réttlátt samfélag þar sem við sitjum öll við sama borð.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert