Ísland í 17. sæti á spillingarlista

mbl.is/Hari

Spillingarvísitala Íslands hefur lækkað jafnt og þétt undanfarin ár og gerir það enn milli ára nú, en lækkun merkir að spilling hafi aukist. Ísland er í 17. sæti á lista Transparency International og lækkar um sex sæti á milli ára. Danmörk er í fyrsta sæti og Finnland og Svíþjóð í því þriðja. Noregur er í sjöunda sæti listans. 

Danmörk er með 88 stig af 100 mögulegum (0 þýðir mikil spilling en 100 þýðir lítil spilling). Finnland og Svíþjóð eru með 85 stig og Noregur 84 stig. Ísland er hins vegar með 75 stig en var með 78 stig á CPI-listanum árið 2019 og í 11. sæti þá. 

Transparency International, alþjóðleg samtök gegn spillingu, birtu í morgun niðurstöður mælinga á spillingu í flestum löndum heims árið 2020. Mælingin nær til spillingar í opinbera geiranum og  bygg­ist á áliti sér­fræð­inga og aðila í við­skipta­líf­inu. Þessi mæl­ing kall­ast Corr­uption Percept­ion Index (CPI) á ensku.

„Þessar mæl­ingar alþjóðasamtakanna Tran­sparency International á spillingu njóta mikillar við­ur­kenn­ingar á alþjóða­vett­vangi. Sam­tökin voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein áhrifa­rík­ustu sam­tökin sem vinna að heil­indum í stjórn­mál­um, stjórn­sýslu og við­skipta­lífi hvar­vetna í heim­in­um. Sam­tökin eru sjálf­stæð og óháð stjórn­völdum og eru ekki rekin til að skila hagn­aði. Þau starfa í meira en 100 löndum og berj­ast gegn spill­ingu og því mikla órétt­læti og margs konar sam­fé­lags­lega skaða sem hún veld­ur.

Alþjóða­stofn­anir hafa lýst því yfir og rann­sóknir sýna með óyggj­andi hætti að spill­ing er ill­víg mein­semd sem ógnar lýðræðinu, grund­vall­ar­rétt­ind­um, tæki­færum og lífs­gæðum fólks hvar­vetna í heim­in­um og grefur undan trausti í samfélaginu og gagnvart stjórnvöldum og stofnunum á sviði framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Ísland er engin und­an­tekn­ing frá því. 

Fall Íslands niður spillingarvísitölulistann er mikið áhyggjuefni og stjórnvöld sem og almenningur ættu að huga alvarlega að því hvað gæti valdið þessari þróun og hvernig er hægt að bæta úr stöðunni,“ segir í fréttatilkynningu. 

Vefur Transparency International 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert