Útfærsla á ábyrgð borgarinnar

Nýju hleðslustöðvarnar þrjár, sem komið hefur verið fyrir á miðri …
Nýju hleðslustöðvarnar þrjár, sem komið hefur verið fyrir á miðri gangstétt. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Reykjavíkurborg er þjónustukaupi að hleðslustöðvum Orku náttúrunnar, sem settar hafa verið upp á Hrannarstíg í Vesturbæ Reykjavíkur og sér borgin um alla hönnun og val á staðsetningu. Þetta segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Orku náttúrunnar, í samtali við mbl.is.

Hleðslustöðvarnar hafa vakið athygli fyrir þá staðreynd að þeim er komið fyrir á miðri gangstétt, að því er virðist í trássi við deiliskipulag svæðisins.

Ólöf segir að til standi að koma upp hleðslustöðvum á ríflega þrjátíu stöðum í borgarlandinu fyrir febrúarlok en markmið fyrirtækisins er að gera þeim kleift að eiga rafbíl sem ekki hafa aðstöðu til hleðslu heima hjá sér. Í öllum tilfellum sér Reykjavíkurborg um að útfæra staðsetningu stöðvanna enda eru þær í borgarlandi. Starfsmenn Orku náttúrunnar koma þeim svo fyrir og sér fyrirtækið um reksturinn.

Raforkan er seld fyrir 25 krónur á kílówattstund auk þess sem greiða þarf hálfa krónu fyrir hverja mínútu. Þeir sem eru með heimilið í viðskiptum við Orku náttúrunnar fá 20% afslátt.

Hleðslustöðvar um alla borg

Í fyrsta áfanga verkefnisins eru, auk Hrannarstígs, Selárskóli, Sólheimar 32a, Laugardalslaug, Kleppsvegur 8, Fornhagi við dælustöð, Logafold við Spöngina, Kelduskóli, Maríubaugur við leikskólann Maríuborg, Álftamýri 32 og Árvað.

Í öðrum áfanga er Sundhölin, Gnoðarvogur 20, Stakkahlíð/Mávahlíð, Stóragerði 16, Breiðholtsskóli, Ártún, Norður- og Iðufell, Sporhamrar, Gvendargeisli (leikskólinn Reynisholt), Móvegur (verslunarmiðstöð) og Hlíðaskóli.

Í þriðja áfanga eru Vesturbæjarskóli, Bólstaðarhlíð 58, Kjarvalsstaðir, Vesturbæjarlaug, Hólmgarður 39, Seljakirkja, Rofabær (Ársel), Vesturhólar, Langirimi (Hvannarimi) og Brekkuhús 1.  

Ekki liggur fyrir hvernig uppsetningin verður útfærð á öðrum stöðum, og hvort gangandi vegfarendur muni þurfa að víkja fyrir staurunum.

Fyrir er ein hleðslustöð á gangstéttinni á Hrannarstíg, sem ætluð …
Fyrir er ein hleðslustöð á gangstéttinni á Hrannarstíg, sem ætluð er bílum á einkastæði Landspítalans. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert