Ekki verið gripið til herts viðbúnaðar

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. Ljósmynd/Almannavarnir

Ríkislögreglustjóri hefur ekki gripið til herts viðbúnaðar vegna skotárása á húsnæði stjórnmálaflokka og bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Hins vegar var fundað með framkvæmdastjórum flokkanna í gær þar sem farið var yfir málin í víðu samhengi. 

„Við fórum yfir mismunandi sjónarmið. Tilgangur fundarins var að styrkja samband við stjórnamálaflokka og fara yfir sjónarmið um það hvenær kemur til kasta okkar,“ segir Sigríður Björk.

Boðað var til fundarins að frumkvæði framkvæmdastjóranna. „Við töldum ástæðu til að setjast yfir málin. Sérstaklega í ljósi skotárása í borginni og á heimili fólks. Það setur annað samhengi á hlutina. Við erum hins vegar ekki búin að hækka neinn viðbúnað. Við bíðum bara róleg og sjáum hvað kemur út úr rannsókninni,“ segir Sigríður Björk sem vísar þar til rannsóknar á skotárásunum. 

„Fundurinn gekk í raun út á það hvernig við getum veitt flokkunum betri þjónustu,“ segir Sigríður Björk.  

Mikilvægt að tala ekki í ásökunartón 

Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að markmið fundarins hafi verið að ná utan um stöðuna sem upp er komin með öryggismál í huga. 

Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingar.
Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingar.

„Flokkunum finnst mikilvægt að vera í samstarfi um þessi mál í stað þess að hver sé í sínu horni. Svona mál þarf að vinna með sameiginlegt markmið í huga. Í grunninn eru það uppbyggileg stjórnmál sem við þurfum að stefna að. Svona árásir eru ofbeldi sem beinist að lýðræðinu. Við þurfum að geta átt í skoðanaskiptum og virt skoðanir annarra. Þegar svona mál koma upp þá er mikilvægt að tala ekki í ásökunartón til hvert annars,“ segir Karen.  

mbl.is