Neitar sök í skotmáli á bíl borgarstjóra

Skotgöt á skrifstofu Samfylkingarinnar.
Skotgöt á skrifstofu Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maðurinn, sem var handtekinn fyrir að hleypa af byssu á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, neitar sök í málinu. Þetta staðfesti fráfarandi verjandi mannsins í samtali við mbl.is en hann mun skipta um verjanda á næstu dögum. 

Maðurinn hefur stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á skotmálinu.

Að sögn fráfarandi verjanda er það að hans beiðni, en hann hefur beðist undan því að sinna sakamálum sem fjallað er um í fjölmiðlum. Við málinu tekur Steinbergur Finnbogason sem verjandi.

„Sem betur fer erum við með réttarkerfi sem byggir á því að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð og það hefur engin sekt verið sönnuð í þessu máli,“ segir Steinbergur í samtali við mbl.is.

Landsréttur taldi manninn ekki hættulegan

Sá grunaði var úrskurðaður í tveggja daga gæsluvarðhald til að byrja með, frá laugardegi til mánudags, þar sem hann var einnig í einangrun.

Eftir það var gæsluvarðhaldið framlengt bæði á grundvelli a- og d- liðar, þ.e. bæði á grundvelli rannsóknarhagsmuna og á grundvelli þess að gæsluvarðhald megi telja  nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.

Maðurinn kærði gæsluvarðhaldið til Landsréttar sem staðfesti á fimmtudaginn gæsluvarðhald yfir honum en einungis á grundvelli rannsóknarhagsmuna. 

Einangrun ekki sjálfsögð

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir ekki sjálfgefið að fólk sem sæti gæsluvarðhaldi fari í einangrun og sérstaklega þurfi að færa rök fyrir því. 

„Það eru mjög strangar kröfur gerðar til þess að fólk sé í einangrun,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is

Þó var farið fram á einangrun yfir manninum í bæði skiptin sem hann var dæmdur í gæsluvarðhald. Héraðsdómur féllst ekki á einangrunarbeiðni í seinna skiptið, á meðan maðurinn sat í gæsluvarðhaldi frá mánudegi síðustu viku til föstudags.

Ekki var látið reyna á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum eftir föstudaginn.

mbl.is