Íslendingur í Aþenu: „Mjög áhugavert“

Svona var umhorfs í Aþenu, höfuðborg Grikklands, í gær.
Svona var umhorfs í Aþenu, höfuðborg Grikklands, í gær. Ljósmynd/Hlín Leifsdóttir

Fimbulkuldi hefur verið undanfarna daga í Grikklandi og á öðrum stöðum við Miðjarðarhafið. Í borginni Florian í norðvesturhluta Grikklands hefur mælst allt að 25 stiga frost og í Aþenu, höfuðborg landsins, er talið að 250 þúsund manns séu á rafmagns. Hlín Leifsdóttir, rithöfundur og söngkona, er í Aþenu og hún ræddi við mbl.is.

„Bæði er allur matur uppseldur, öll svona ferskvara, birgjarnir voru ekkert að keyra út í dag og öll svona pöntunarþjónusta, sem hefur verið mikið notuð í þessu Covid-ástandi, hún lá öll niðri,“ segir Hlín.

Hlín Leifsdóttir.
Hlín Leifsdóttir. Ljósmynd/Hlín Leifsdóttir

Grísk börn sjá snjó í fyrsta sinn

Hlín er þó Íslendingur og kallar því ekki allt óveður ömmu sína og segir hálfskondið hve mikið er gert úr veðrinu í Aþenu. Mikið rok hefur verið og úrkoma um 20cm.

„Þetta er mjög áhugavert hvernig smá veðurbreytingar geta sett allt á hliðina svona tímabundið.“

„Ég mun líklega hlæja að þessu alla ævi en það ástæðan fyrir þessum truflunum er extreme weather conditions eins og þeir kalla það.“

Þó að grískt samfélag sé að mestu í algjörum dvala vegna vetrarhörkunnar og útgöngubanns segir Hlín að það hafi verið ánægjulegt að sjá grísk börn leika sér í snjónum í fyrsta sinn.

„Vinna lá nú niðri að mestu leyti held ég í dag en það var gaman að sjá að börnin léku sér í snjónum og voru að sjá hann í fyrsta skipti. Og ég heyrði að einhver sagði við krakkana síðan að þau gætu svo sagt sínum barnabörnum frá þegar þau léku sér í snjónum.

Það er það sjaldgæft að það sé svona mikill snjór hérna. Þetta gerði mikla lukku þessi snjór. Fólk er kannski aðallega vant því að sjá svona í bandarískum bíómyndum.“

Þessi gríski snjókarl er ef til vill ekki eins tignarlegur …
Þessi gríski snjókarl er ef til vill ekki eins tignarlegur og þeir sem sjást á Íslandi þegar hér snjóar. Æfingin skapar meistarann. Ljósmynd/Hlín Leifsdóttir
Melina Mercouri, listakona og ráðherra, snjóklædd 16. febrúar 2021. Melina …
Melina Mercouri, listakona og ráðherra, snjóklædd 16. febrúar 2021. Melina varð fyrsta konan til að gegna embætti menningar- og íþróttamála í Grikklandi og hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna árið 1960 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Never on Sunday. Ljósmynd/Hlín Leifsdóttir

Útgöngubann

Í Grikklandi er nú nær algjört útgöngubann og segir Hlín að lögregla og hermenn sjáist víða á götum úti í Aþenu. Vegna faraldursins og sóttvarnaaðgerða í landinu segir Hlín að fjölgað hafi verið í grísku lögreglunni.

„Það er algjört lockdown og maður þarf að hafa svona blað með sér til að sanna að maður hafi lögmæta ástæðu til að fara út. Þá er löglegt að fara út í göngutúr sér til heilsubóta. Svo eru matvörubúðir opnar og veitingastaðir mega senda heim. Það er nú ekki svo slæmt að fara í göngutúr hérna. Ég bý í miðborginni og þar er mjög margt fallegt að sjá ef maður kemst í góðan göngutúr.“

Þetta aldintré gafst upp á að halda á ávöxtum sínum …
Þetta aldintré gafst upp á að halda á ávöxtum sínum á tímum þegar ferskvara er ekki fáanleg í grískum verslunum. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Ljósmynd/Hlín Leifsdóttir

„Ég er ekki að sjá mikið meira af hermönnum og lögreglunni en vanalega, en það er náttúrulega mikið af þeim hérna úti á götunni útaf kórónuveirunni. Svo er hálfskondið að sjá, það er eins og lögreglan eigi ekki nógu mikið af mótorhjólum þannig að það eru alltaf tveir á hverju mótorhjóli, einn svona aftan á.“

Frosthörkurnar í Grikklandi hafa sums staðar verið gríðarlegar eins og fyrr segir. Þegar þetta er skrifað hefur þó aðeins hlýnað og segir á vef norsku veðurstofunnar að sé átta gráðu hiti í Aþenu. Spurð út í veðurspá næstu daga er Hlín bjartsýn.

 „Já, það á að hlýna.“

Vinna lá að mestu leyti niðri í Aþenu í dag. …
Vinna lá að mestu leyti niðri í Aþenu í dag. Þessi götulistamaður mætti þó til vinnu. Ljósmynd/Hlín Leifsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert