Rótgrónasta misréttið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ráðist verði í heildstæða vinnumarkaðsrannsókn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ráðist verði í heildstæða vinnumarkaðsrannsókn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir alvarlegt mál hve miklu lægri laun kvenna eru að meðaltali samanborið við laun karla, eins og kemur skýrt fram í nýrri tekjusögurannsókn forsætisráðuneytisins.

Þar kemur meðal annars fram að laun háskólamenntaðra kvenna séu meira og minna þau sömu og laun grunnskólamenntaðra karla hér á landi.

„Mér finnst þetta auðvitað mjög alvarlegt en þetta kemur því miður ekki á óvart, enda hef ég sagt að þetta er eitthvert rótgrónasta misrétti í samfélagi okkar,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Kvennastörf vanmetin í íslensku samfélagi

Katrín telur að muninn megi að sumu leyti skýra með þremur meginatriðum. 

„Í fyrsta lagi er þetta kynskiptur vinnumarkaður og kvennastörf virðast vanmetin í samfélagi okkar. Í öðru lagi er vinnutími oft meiri hjá körlum, en á móti kemur oft vinna kvenna inni á heimili, sem er ekki metin til launa. Í þriðja lagi er það síðan óútskýrður kynbundinn launamunur, þegar fólk er bara með algjörlega sambærilega vinnutíma og störf, en konurnar samt með lægri laun.“

Katrín segir að nú standi til að ráðast í heildstæða vinnumarkaðsrannsókn með Hagstofunni sem mun skila niðurstöðum í apríl. Í kjölfarið verður metið hvort jafnlaunavottunin, sem tekin var í notkun 2017, hafi skilað raunverulegum árangri eða hvort svo sé einfaldlega ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert