Geti búist við skjálftum yfir 6 að stærð

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að hækkun viðbúnaðarstigs vegna jarðskjálfta á Reykjanesskaga hafi fyrst og fremst þýðingu fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir, en að á þessu viðbúnaðarstigi megi þó gera ráð fyrir að stærri skjálftar ríði yfir en þeir sem voru fyrr í dag. Nefnir Víðir að miðað við hættustig geri almannavarnir ráð fyrir því að skjálftar gætu orðið eitthvað yfir 6 að stærð. Segir hann að búast megi við að hrinan standi yfir í nokkra daga.

„Við teljum raunverulega hættu á stórum skjálftum

„Við teljum raunverulega hættu á stórum skjálftum og við þurfum að vera viðbúin því,“ segir hann. Fyrir almenning þýðir breytingin á viðbúnaðarstiginu að sögn Víðis fyrst og fremst að fólk eigi að athuga hvað það geti gert heima hjá sér eða í nærumhverfi sínu, t.d. á vinnustöðum, til að tryggja að hlutir hrynji ekki úr hillum eða falli af veggjum. Nefnir hann sem dæmi sjónvörp og hluti í skápum og hillum. „Fólk ætti að fara yfir heimili sitt og sjá hvort eitthvað þurfi að tryggja betur.“

Víðir segir að miðað við hættustig sé horft til að skjálftar geti farið eitthvað yfir 6 að stærð. Það skipti hins vegar miklu hver staðsetning skjálftanna sé hvort hætta af þeim teljist mikil eða ekki. „Skjálfti af þessari stærð getur haft talsverð áhrif,“ segir hann varðandi möguleg áhrif á höfuðborgarsvæðið.

Stórir skjálftar án fyrirvara þekktir í Brennisteinsfjöllum

Samkvæmt skjálftavöktun Veðurstofunnar hafa skjálftarnir fært sig nokkuð austar eftir Reykjanesskaganum frá því að fyrsti skjálftinn reið yfir. Hafa til að mynda þó nokkrir yfir 3 að stærð átt upptök sín í nágrenni Seltúns. Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Víðir að fylgst væri vel með því hvort skjálftahrinan væri að færa sig austar, yfir í Brennisteinsfjöll á milli Kleifarvatns og Bláfjalla. Talsverðar áhyggjur séu að þar geti orðið stærri skjálftar auk þess sem vísindamenn hafa í langan tíma varað við mögulegum eldgosum þar. Það skal þó taka fram að ekkert bendir nú til þess að kvikuhreyfingar fylgi jarðskjálftunum.

Spurður um þessa hreyfingu austur í dag segir Víðir að miðað við upplýsingar frá sérfræðingum Veðurstofunnar þá hafi nánast engir skjálftar nú orðið í Brennisteinsfjöllum. „En það gætu orðið skjálftar án fyrirvara þar,“ segir hann og bendir á að það sé vel þekkt úr sögunni að þar verði skjálftar stærri en 6 sem gætu valdið miklu tjóni. Sprungan sem um ræðir nær frá Hlíðarvatni að stóra Kóngsfelli við Bláfjöll.

Vel þekkt að virkni geti aukist á háhitasvæðum

Greint var frá því fyrr í dag að gufubólstrar hefðu sést við Eldborgarhraun, austur af Höskuldarvöllum og Keili. Þar er þekkt að hiti sé undir, en Víðir segir einnig að almennt sé það svo að þegar jarðskjálftar verði á háhitasvæðum þá sé algengt að virkni þeirra aukist tímabundið. Þá séu líka veðuraðstæður í dag þannig að gufa sjáist vel, enda hæglátt og bjart.

Fyrir stuttu síðan var stöðufundur almannavarna vegna jarðskjálftanna og segir Víðir að ekkert hafi komið þar fram um mikla aukna virkni eða ný svæði þar sem jarðhiti komi fram.

Höfuðborgarsvæðið, Suðurnes og Suðurland

Almannavarnir funduðu fyrir hádegi bæði með almannavarnadeildum og yfirvöldum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Seinni partinn var svo fundað með lögreglustjóranum á Suðurlandi, en færist skjálftarnir austar gæti það haft áhrif í Hveragerði og Þorlákshöfn að sögn Víðis. Segir hann að mikið samráð og upplýsingaflæði einkenna þessa samvinnu og því verði haldið áfram eftir því sem málinu vindi áfram.

mbl.is