Veitingamenn „hrærðir“ eftir að þeir hlutu gullverðlaun

Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson, veitingamenn á Ölstofunni.
Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson, veitingamenn á Ölstofunni. Ljósmynd/Baldur Kristjáns

Íslenskir bjórar voru sigursælir á hinni árlegu bjórkeppni European Beer Challenge í London á dögunum. Bríó hlaut tvær viðurkenningar.

Bríó hlaut annars vegar gullverðlaun í flokki pilsnerbjóra og hins vegar fékk ný og áfengislaus útgáfa Bríó silfurverðlaun í flokki áfengislausra bjóra. Um er að ræða verðlaun fyrir síðasta ár.

Kormákur og Skjöldur gátu ekki leynt gleði sinni þegar þeir …
Kormákur og Skjöldur gátu ekki leynt gleði sinni þegar þeir fréttu af því að Bríó hafi hlotið gullverðlaun á European Beer Challenge. Ljósmynd/Baldur Kristjáns

„Þetta er geipilegur heiður fyrir okkur Bríó-fólkið og ekki laust við að maður sé bara hrærður yfir þessu, þó það sé enginn skjálfti í okkur samt,“ segir Kormákur Geirharðsson, vert á Ölstofunni.

Bríó er sem kunnugt er húsbjór á Ölstofunni og var þróaður af Borg brugghúsi fyrir rúmum áratug í samstarfi við fastagesti staðarins. Kormákur og Skjöldur Sigurjónsson, viðskiptafélagi hans, leiddu níu mánaða stífa vinnu við að smakka bjórinn og leit lokaútgáfa hans dagsins ljós í maí árið 2010. 

Í framhaldi vann Bríó til fjölda verðlauna á bjórkeppnum um allan heim, til að mynda World Beer Cup, European Beer Star og World Beer Awards. Aðstandendur bjórsins eru að vonum kátir með nýja viðurkenningu í safnið:

„Við höfum ákveðið að halda upp á þetta með því að bjóða gestum Ölstofunnar upp á 2 fyrir 1 tilboð af Bríó milli 5 og 8 frá og með bjórdeginum 1. mars, sem er á mánudaginn, og út fimmtudaginn í næstu viku. Við staðfestum það auðvitað daglega hérna á Ölstofunni að Bríó er hinn fullkomni bjór og óhætt að mæla með honum hvort sem er til að njóta eins og sér eða með matnum,“ segir Kormákur, nokkuð drjúgur með sig enda tekinn tali í miðjum drekkutíma á Ölstofunni. 

Gleðjast yfir tilslökunum stjórnvalda

Hann kveðst horfa bjartsýnn fram á veginn og býst við að veitingarekstur taki vel við sér eftir að létt var af samkomutakmörkunum í vikunni. 

„Við vörðum lunganum af síðasta ári í ýmsar endurbætur – bæði tókum við Ölstofuna í gegn og svo er auðvitað Bríó sjálfur kominn í uppfærðar umbúðir. Nýja útlitið byggir áfram á þessum vinalega karakter sem Stefán Einarsson teiknaði fyrir Bríó í upphafi en er að öðru leyti meira í takt við núverandi Borgarlínu. Við erum því meira en tilbúnir í að taka á móti hækkandi sól og minnkandi höftum sem fram undan eru.“

Kormákur segir ennfremur Bríó eigi nóg inni. „Það er heilmikil gróska í Bríó þessa dagana.  Seinnipart seinasta árs mætti litli bróðir til leiks, áfengislaus Wheat Ale bjór, sem valdið hefur strákunum í brugghúsinu umtalsverðum vandræðum sökum vinsælda en þeir þurfa í sífellu að vera að brugga hann til að reyna að halda í við eftirspurn. Svo verðum við komin með einskonar Bríó-tríó bráðlega, en ég gef ekkert meira upp um það í bili.“

Fleiri bjórar verðlaunaðir

Bríó-bjórarnir voru ekki þeir einu sem hlutu verðlaun á European Beer Challenge. Helga hlaut gullverðlaun í flokki ávaxtabjóra, Úlfrún hlaut silfurverðlaun í flokki Session IPA-bjóra og Úlfey hlaut gullverðlaun í flokki New England IPA-bjóra.

mbl.is