Allir vegir vaktaðir

Reykjanesbraut er talin í hættu ef gos hefst á svæðinu.
Reykjanesbraut er talin í hættu ef gos hefst á svæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmenn Vegagerðarinnar fylgjast grannt með ástandi vega, sérstaklega á Suðurnesjum, þessa dagana og fara daglega um alla vegi til að athuga hvort sprungur hafi myndast vegna jarðskjálfta eða skriður fallið á vegi.

Aðeins hafa komið sprungur í einn veg, Suður­strand­ar­veg um 1,3 km vestan við Vig­dís­ar­valla­veg og nokkuð er um minni skemmdir í nágrenninu. Sú sprunga uppgötvaðist á níunda tímanum í morgun, en í samtali við mbl.is segir Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar, að talið sé að sprungan hafi myndast í skjálftanum sem reið yfir klukkan 8:07 í morgun og var 5,2 að stærð. Ekki sé þó útilokað að hún hafi myndast í nótt.

Ekki þótti ástæða til að loka veginum, en sett hefur verið upp viðvörunarskilti. Þá verður farið í að gera við veginn annaðhvort á morgun eða mánudag. Bergþóra segir að mestar áhyggjur hafi verið hafðar af mögulegu grjóthruni á Krýsuvíkurvegi, en ekkert hafi þó hrunið á hann.

Jarðvísindamenn við kvikumælingar á Reykjanesi í vikunni.
Jarðvísindamenn við kvikumælingar á Reykjanesi í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá er einnig fylgst með öðrum mannvirkjum, meðal annars brúm. Allar brýr eru hannaðar til að þola jarðskjálfta, sérstaklega á þekktum skjálftasvæðum eins og Reykjanesi, og segir Bergþóra þær nokkuð þolnar. Engu að síður sé ástæða til að hafa varann á. Skemmst sé að minnast skemmda á brúm í Suðurlandsskjálftanum 17. júní árið 2000.

Tugmilljóna tjón ef hraun rennur á veg

Vísindamenn við Háskóla Íslands uppfæra nú reglulega spálíkan um hraunrennsli, ef til eldgoss kæmi. Rétt er þó að taka fram að engar vísbendingar eru um kvikusöfnun og að eldgos sé því á leiðinni.

Samkvæmt nýjustu uppfærslu líkansins er talið líklegast að gos hæfist í námunda við Trölladyngju. Byggð væri þá ekki í hættu en hraunstraumar gætu lokað Reykjanesbraut. Að sögn Bergþóru voru engar sérstakar ráðstafanir gerðar með tilliti til eldgosa við lagningu brautarinnar. Ráðstafanir eins og að hækka veginn væru enda til lítils ef hraun rynni þar á annað borð.

Komi til goss gæti farið svo að brautin lokist, en fleiri dagar gætu þó liðið áður en hraunið nær þangað. „Það er ekki þannig að þetta gerist einn, tveir og tíu eftir að gosið hefst,“ segir Bergþóra, en hún sat í hádeginu fund almannavarna og annarra viðbragsaðila með sérfræðingum frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands þar sem farið var yfir jarðskjálftavirknina.

Spurð út í tjón sem fylgir því ef hraun rennur á veginn segir hún að það sé allt háð magni, staðsetningu og hve lengi hraunrennslið varir – eðlilegt svar við svo opinni spurningu. „En hraun yfir veg er alltaf tugmilljóna tjón.“

mbl.is