Tíu samtök sent inn hagsmunaskráningu

Stjórnarráðið birtir nú lista yfir skráða hagsmunaverði. Ætla má að …
Stjórnarráðið birtir nú lista yfir skráða hagsmunaverði. Ætla má að listinn lengist nokkuð á næstunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíu samtök hafa nú sent inn skráningu hagsmunavarða sinna til forsætisráðuneytisins og hafa þeir verið birtir á heimasíðu Stjórnarráðsins. Ljóst er að hagsmunaaðilar hafa tekið brýningu forsætisráðuneytisins frá því á föstudag þegar ítrekað var að hagsmunaaðilum bæri að senda inn slíka skráningu.

Lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráðinu voru sett í fyrra en tóku gildi um áramót. Meðal þess sem kveðið er á um í lögunum er að skrá skuli samskipti stjórnvalda við svokallaða hagsmunaverði, einnig þekktir sem lobbíistar, og þeim gert heimilt að skrá sig sérstaklega sem slíka.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, beindi þeirri fyrirspurn til forsætisráðherra á dögunum hversu margir hefðu skráð sig sem hagsmunaverði og fékk þau svör á fimmtudag að aðeins hefði ein skráning borist. Sú var frá Hagsmunasamtökum heimilanna, en Ásthildur Lóa Þórsdóttur formaður, Vilhjálmur Bjarnason varaformaður og Guðmundur Ásgeirsson, sérfræðingur hjá samtökunum, eru þar nefnd sem fulltrúar samtakanna. Samkvæmt upplýsingum frá samtökunum var tilkynningin send Stjórnarráðinu 1. janúar, daginn sem lögin tóku gildi.

Í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Jóns Þórs var því einnig svarað að vefsvæðið, þar sem birta ætti hagsmunaskráningar, væri ekki komið upp en unnið væri að því. Degi síðar var það komið upp, svo ætla má að það hafi gleymst þar til fyrirspurnin barst.

Sem fyrr segir hafa nú tíu félög skráð hagsmunaverði sína. Þar af eru Samtök atvinnulífsins (SA) og fimm af sex aðildarsamtökum þeirra; öll nema Samtök iðnaðarins. Því til viðbótar eru Frumtök, samtök lyfjaframleiðenda á Íslandi, Viðskiptaráð, Félag atvinnurekenda og fyrrnefnd Hagsmunasamtök heimilanna.

Ætlað að takmarka hagsmunaárekstra

Lögin um varnir gegn hagsmunaárekstrum voru, sem fyrr segir, sett síðasta sumar en tóku gildi um áramót. Samkvæmt þeim er æðstu stjórnendum Stjórnarráðsins, sem og aðstoðarmönnum þeirra, skylt að halda hagsmunaskráningu sem tiltekur eignir, skuldir, sjálfskuldarábyrgð og aðrar ábyrgðir sínar innanlands og erlendis. 

Alþingi hafði þegar sett sjálfu sér sambærilegar reglur, en þær hafa þó ekki verið leiddar í lög.

Með nýju lögunum er æðstu stjórnendum og aðstoðarmönnum þeirra einnig bannað að nýta upplýsingar sem þeir höfðu aðgang að í krafti starfs síns fyrir hið opinbera á öðrum vettvangi. Þá er þeim ekki heimilt að gerast hagsmunaverðir í sex mánuði eftir að þeir ljúka störfum í Stjórnarráðinu.

Ráðherra getur þó, samkvæmt lögunum, veitt starfsmanni undanþágu frá þessu banni, og raunar á starfsmaður rétt á biðlaunum út mánuðina sex í sárabætur ef ráðherra fellst ekki á að hann taki að sér slíkt starf á því tímabili.

Uppfært kl. 17:39
Í upphaflegri útgáfu sagði að sex mánaða ráðningarbann æðstu stjórnenda til hagsmunaaðila ætti einnig við um aðstoðarmenn ráðherra. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt.

mbl.is