Féll í stiga á veitingahúsi

Tilkynnt var um slys á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur skömmu fyrir klukkan 19 í gærkvöldi, en kona hafði dottið niður stiga á staðnum og fengið sár á höfuð. 

Konan var flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á slysadeild, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. 

Alls voru 86 mál skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 til 5 í morgun. Átta voru vistaðir vegna ýmissa mála í fangageymslu lögreglu. Hið minnsta 16 mál voru vegna samkvæmishávaða. 

Par var handtekið um 21:42 grunað um akstur undir áhrifum fíkniefna, að fara ekki að fyrirmælum lögreglu, ítrekaðan akstur bifreiðar svipt ökuréttindum og fleira. 

Tilkynnt var um konu sem réðst á dyravörð á veitingahúsi um 22:15 í miðborginni. Var konan handtekin og vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu. Þá var á fimmta tímanum í morgun maður handtekinn miðsvæðis í Reykjavík, grunaður um brot á lögreglusamþykkt og brot á vopnalögum. 

Reyndi að keyra af vettvangi 

Skömmu fyrir klukkan eitt í morgun var tilkynnt um umferðaróhapp í Hafnarfirði, en ökumaður hafði ekið á staur og reynt að aka af vettvangi en bifreiðin var óökufær. Maðurinn var handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Engin meiðsl urðu á manninum. 

Þá var tilkynnt um þjófnað í sundlaug skömmu fyrir klukkan 17 í gær. Sundlaugargestur týndi lykli að skáp sínum og þegar gesturinn kom að skápnum að sundferð lokinni hafði öllu úr skápnum verið stolið, fötum, síma og fjármunum. Gesturinn fann síðan föt sín í öðrum skáp. 

Þá hafði lögregla eftirlit með veitingahúsum í miðborginni og voru nokkrir veitingastaðir sóttir heim. Kannað var hvort farið væri eftir gildandi sóttvarnareglum sem og rekstrarleyfi veitingastaða. Almennt stóðu starfsmenn veitingastaða sig vel en þó þurfti lögregla að leiðbeina starfsmönnum í einhverjum tilfellum meðal annars varðandi lokunartíma, sem er klukkan 22:00, hvenær gestir þurfi að yfirgefa veitingastaðina, klukkan 23:00, og að þjóna þurfi gestum til borðs.

Starfsmenn veitingastaða tóku heimsóknum lögreglu almennt vel og tóku öllum ábendingum einnig vel. Þó nokkur fjöldi fólks var í miðbænum og myndaðist oft og tíðum hópur fólks utan við nokkra veitingastaði, en þó ekki yfir leyfilegum fjöldatakmörkum.

mbl.is