Gagnrýna að hafa ekki verið látin vita af myglugró

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Hallur Már

Foreldrar barna í Fossvogsskóla hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau gagnrýna að skýrsla, sem unnin var af Náttúrufræðistofnun, og minnisblöð, sem Verkís útbjó, um að myglugró fyndist enn í Fossvogsskóla, hafi ekki verið kynnt foreldrum tafarlaust. Skýrslan og minnisblöðin voru tilbúin í desember í fyrra en voru ekki birt opinberlega á vef Reykjavíkurborgar fyrr en í lok febrúar.

Foreldrarnir segja mjög alvarlegt að þeim hafi ekki verið greint frá því um leið að skaðlegar sveppategundir fyndust enn víða í skólanum. Á sama tíma séu börn að veikjast, að öllum líkindum vegna þess að þeim er gert að stunda nám í menguðu húsnæði.

Umræddar niðurstöður Náttúrufræðistofnunar, sem nú er að finna á vef Reykjavíkurborgar, kveða á um að þrátt fyrir ítarleg þrif og sótthreinsun í skólanum hafi enn fundist myglugró sem skaðleg eru heilsu fólks. Tekin voru sýni af 14 svæðum og gró kúlustrýnebbu, skaðlegs myglusvepps, fannst í minnst 11 sýnum. Þá fannst einnig gró litafruggu í minnst níu sýnum, en hún er einnig skaðleg fólki.

Í yfirlýsingu foreldranna segir að eina leiðin til að leysa þann vanda sem upp er kominn í Fossvogsskóla sé að finna upptök myglunnar og grípa til aðgerða.

Undir yfirlýsinguna skrifa:

Vilborg Þórðardóttir

Guðni Einarsson 

Sigríður Ólafsdóttir

Jónína Margrét Sigurðardóttir

Helga Guðmundsdóttir

Svana Bjarnadóttir

Guðrún Ásta Bjarnadóttir

Margrét Jónína Gísladóttir

Sigurður Þorsteinsson

Sólrún Dröfn Björnsdóttir

Héðinn Þórðarson

Björn Steinbekk

Erna Björk Häsler

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert