Í klefa eftir slys

Ökumaður sem missti stjórn á bifreið sinni á Þingvallavegi í gærkvöldi ók út af og hafnaði á hvolfi í skurði. Sjúkrabifreið kom á vettvang og eftir skoðun var ökumaðurinn fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar.  Að lokinni aðhlynningu á Landspítalanum var  ökumaðurinn handtekinn grunaður um ölvun við akstur og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Á ellefta tímanum í gærkvöldi var ökumaður handtekinn eftir að hafa ekið á kantstein og skemmt bifreið sína í miðborginni. Hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, fór ekki að fyrirmælum lögreglu, vörslu og sölu fíkniefna og lyfja. Ökumaðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Skömmu fyrir miðnætti datt ung kona af rafskútu og meiddist í andliti í Austurbænum (hverfi 105). Hún var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttökuna í Fossvogi til aðhlynningar en hún var með áverka á höku og munni.

Lögreglan hafði afskipti af manni grunuðum um þjófnað í verslun í Austurbænum (hverfi 108) seint í gærkvöldi. Tveir ökumenn voru síðan stöðvaðir fyrir akstur án ökuréttinda og er annar þeirra grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. 

Skráningarmerki voru fjarlægð af 14 bifreiðum sem ekki höfðu verið færðar til skoðunar á réttum tíma og/eða voru ótryggðar í nótt en eftirlitið fór fram í Kópavogi og Fella- og Hólahverfi.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert