„Mjög óeðlilegt“ að Veðurstofan tísti bara á ensku

Á vaktinni: Einar Bessi Gestsson og Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingar á …
Á vaktinni: Einar Bessi Gestsson og Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingar á Veðurstofunni. Myndin tengist frétt ekki beint enda óvíst hvort viðföng hennar komi að samfélagsmiðlun stofnunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í jarðskjálftahrinunni sem staðið hefur yfir á Reykjanesi undanfarið hefur verið hægt að fylgjast með uppfærslum Veðurstofunnar á stöðunni á facebooksíðu stofnunarinnar og á vef stofnunarinnar, vedur.is.

Veðurstofan heldur reyndar einnig úti aðgangi á Twitter og þar virðast uppfærslur tíðari.  Málið með hann er þó málið á honum: Veðurstofan á Twitter er alfarið á ensku.

Í raun og veru er ekkert til sem heitir Veðurstofan á Twitter, heldur aðeins „Icelandic Meteorological Office  IMO“. 

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, kveðst ekki sjá að þetta fyrirkomulag Veðurstofunnar samræmist lögum um stöðu íslenskrar tungu.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Þar er ein greinin svohljóðandi: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“

Eiríkur: „Þarna er alveg skýrt að íslenska er mál opinberra stofnana.“ Veðurstofan er opinber stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir umhverfisráðherra.

Léleg skýring að skipta þessu eftir miðlum

Eiríkur segir að mjög eðlilegt og bráðnauðsynlegt sé að upplýsingum um náttúruhamfarir sé miðlað á ensku líka. Hann sé alls ekki að gera athugasemd við það enda fjöldi fólks sem þarf á þeim upplýsingum að halda sem skilur ekki íslensku.

„Að íslenska skuli ekki vera höfð með, það er það sem mér finnst mjög óeðlilegt. Mér finnst það líka dálítið léleg skýring að tala um að Facebook sé á íslensku og Twitter á ensku. Ef þetta snýst um að forðast tvíverknað er mjög einfalt að tengja þetta saman þannig að upplýsingarnar birtist á báðum miðlum á íslensku og ensku,“ segir Eiríkur.

Hann bætir við að stundum heyrist það sjónarmið að allir skilji ensku hvort eð er og því sé einfaldast að nota hana í tilfellum sem þessum, þegar á að ná til allra. Það segir hann þó rangt og í raun og veru sérstaklega mikilvægt að öryggismál séu á íslensku svo að fólk skilji þau betur.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er það meðvituð ráðstöfun að twitteraðgangurinn sé á ensku og að Facebook sé á íslensku. Stafræna umhverfið sé vissulega í stöðugu endurmati en stefnan í bili er að hátta þessu svona.

mbl.is