Áður spurt um dagbókarfærslur sem „ganga nærri borgurum“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. Haraldur Jónasson/Hari

 Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að hún hafi áður spurt um dagbókarfærslur lögreglu sem hún telur að „gangi nærri borgurum.“

Þetta sagði Áslaug Arna í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Spurningin var borin upp af Guðmundi Andra Thorssyni, þingmanni Samfylkingar, sem vildi fá nánari skýringu á samtölum dómsmálaráðherra og Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í tengslum við Ásmundarsalarmál. 

Guðmundur Andri Thorsson bar upp fyrirspurn á þinginu.
Guðmundur Andri Thorsson bar upp fyrirspurn á þinginu.

Hvers vegna að hringja hálf fimm á aðfangadag?

Eins og fram hefur komið hringdi Áslaug Arna tvívegis Höllu á aðfangadag. Símtölin voru ekki skráð í ráðuneytinu eins og reglur segja til um ef um mikilvæg símtöl er að ræða. „Hvers vegna var ráðherra að hringja klukkan hálf fimm á aðfangadag ef ekki var um mikilvæg símtöl að ræða?“ spurði Guðmundur Andri í seinni hluta fyrirspurnar sinnar.

Áslaug svaraði því til að fjölmiðlar hafi innt hana svara á aðfangadag. Reglur kveði ekki á um að skrá beri óformleg samtöl í þágu upplýsingaöflunar fyrir almenning.

mbl.is

Bloggað um fréttina