Ágætlega bjartsýnn

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Ásdís

Á sunnudaginn var, 28. febrúar, var ár síðan fyrsta kórónuveirusmitið greindist á Íslandi. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir óhætt að segja að árið hafi verið lærdómsríkt. 

„Búið að vera mjög viðburðaríkt ár og ýmislegt og margt komið upp á sem við getum dregið lærdóm af og það er alltaf það sem við erum að reyna að gera, við erum að reyna að nýta okkur það sem við höfum lært til að halda áfram,“ sagði Þórólfur í samtali við mbl.is 

Þórólfur segir erfitt að segja til um það hvort hann hefði búist við því fyrir ári að í dag væri enn verið að kljást við kórónuveiruna.

„Við höfum aldrei staðið í þessu áður svo það er erfitt að segja nákvæmlega fyrir fram hvernig framvindan hefði orðið. En það sem er ánægjulegt í þessu er að við erum að fá bóluefni miklu fyrr en menn töldu og góð bóluefni svo menn gleðjast bara yfir því, annars hefðum við þurft að vera í hörðum aðgerðum áfram.“

Aðspurður sagði Þórólfur alveg hægt að færa rök fyrir því að meirihluti landsmanna verði bólusettur um mitt ár, ef allt stenst, en benti þó á að enn ættu eftir að koma dreifingaráætlanir frá fyrirtækjum fyrir annan ársfjórðung. 

Auk þess sagði Þórólfur að útlitið væri gott ef við stæðum okkur í okkar einstaklingsbundnu sóttvörnum og bætti við:

„Það að létta á ýmsum takmörkunum er í raun og veru bara að liðka fyrir ýmissi starfsemi, atvinnustarfsemi og annarri slíkri starfsemi innanlands, það þýðir ekki það að við getum sleppt fram af okkur beislinu og þurfum ekki að passa okkur lengur, við þurfum að halda þessu áfram, annars fáum við þetta í bakið aftur.“

Tekist nokkuð vel til

Er eitthvað sem þið eruð sérstaklega ánægð með eða sem hefði mátt betur fara? 

„Það er auðvitað bara mjög margt og auðvitað eiga allir eftir að gera upp þetta ár og þennan faraldur hver á sinn hátt. Það er bara í mjög mörg horn að líta og það er hægt að taka svona margvísleg málefni fyrir í því í sjálfu sér og það verður verkefni næstu ára að gera það upp. 

Svo líka sýnist sitt hverjum svo þetta verður bara mjög fróðlegt en það er held ég bara hollt í byrjun að halda sig við svona staðreyndir, tölulegar upplýsingar, hvernig þetta hefur gengið, hvernig við getum tengt við það sem við vorum að gera og svo framvegis og ég held að okkur hafi bara tekist nokkuð vel til,“ sagði Þórólfur og bætti við:

„Auðvitað er alltaf hægt að benda á eitthvað eftir á sem kannski er hægt að gera öðruvísi en það bíður betri tíma að gera það upp.“

Að lokum sagðist Þórólfur ágætlega bjartsýnn á framhaldið. 

mbl.is