Ekki taldir geta spillt sönnunargögnum í morðmáli

Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Þeir aðilar sem hafa verið látnir lausir úr gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglu á manndrápsmáli í Rauðagerði 13. febrúar eru ekki taldir geta spillt sönnunargögnum í málinu að sögn Margeirs Sveinssonar yfirlögregluþjóns. 

Íslendingur á fimmtugsaldri var í dag látinn laus úr haldi þegar gæsluvarðhald yfir honum rann út. Honum er þó gert að sæta farbanni í fjórar vikur. Þá var í gær maður úrskurðaður í átta daga farbann í tengslum við málið, en viðkomandi hafði áður setið í gæsluvarðhaldi og átti það að renna úr á miðvikudag. 

„Við teljum okkur vera búin að skýra þeirra þátt í þessu og að það sé ekki hætta á að þeir spilli sönnunargögnum. Þá er ekki tilefni til að halda þeim í gæslu á grundvelli rannsóknarhagsmuna,“ segir Margeir. 

Rannsókn gæti tekið nokkrar vikur enn

Alls voru tólf handteknir vegna málsins og hafa níu þeirra verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á einhverjum tímapunkti. 

Fimm eru enn í gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhald yfir fjórum þeirra rennur út síðdegis á morgun og verður þess krafist að þrír þeirra verði úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald í tvær vikur að sögn Margeirs. Ákvörðun um hvort krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir fjórða manninum verður tekin á morgun. Gæsluvarðhald yfir fimmta manninum rennur út á föstudag. 

Yfirheyrslur yfir mönnunum fimm standa enn yfir að sögn Margeirs, en þeir eru í haldi á Hólmsheiði. Margeir segir það viðbúið að rannsókn málsins eigi eftir að taka nokkrar vikur enn. 

mbl.is