Þjónustutími Strætó styttur

Þjónustutími Strætó á kvöldin hefur verið styttur.
Þjónustutími Strætó á kvöldin hefur verið styttur. mbl.is/Hjörtur

Þjónustutími á kvöldin á völdum leiðum Strætó innan höfuðborgarsvæðisins hefur tímabundið verið styttur frá 1. mars, að því er segir í tilkynningu.

Ákveðnar leiðir sem voru farnar á kvöldin hafa þannig verið felldar niður. Á vefsíðu Strætó  sjá hvaða leiðir um er að ræða. 

„Samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar og skert starfsemi veitingastaða, skemmtistaða og annarra þjónustuaðila hefur haft mikil áhrif á farþegafjölda hjá Strætó seint á kvöldin,“ segir í tilkynningunni. 

Að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, uppýsingafulltrúa Strætó, er farþegafjöldinn á kvöldin nánast enginn. „Nú þurfum við að fara betur með fjármunina og finna svona lausnir,“ sagði Guðmundur.  

Fyrirsjáanleikinn óviss

Óvíst er hversu lengi þessi stytting mun vara. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, benti á í samtali við mbl.is að ekkert sé vitað um fyrirsjáanleikann á þessum faraldri eða hvað þjóðfélagið verður lengi lokað. 

„Vissulega var svo sem dregið úr lokunum í síðustu viku þannig að ef það heldur áfram þá er náttúrulega viðbúið að við drögum þetta fljótlega til baka,“ sagði Jóhannes en bætti við að ef þjóðfélagið heldur áfram að vera lokað gæti stytting þjónustutímans varað lengur.

Aðspurður segir Jóhannes ástæðuna fyrir því að styttingin sé innleidd núna en ekki síðasta haust þegar meira var um lokanir, vera að fyrirsjánleikinn hafi verið óviss og reynt hafi verið að sýna ákveðna hollustu við viðskiptavini. 

„Svo kemur í ljós þegar við förum inn í þetta nýja ár að það vantar bara smá fé inn í fjárhagsáætlun sem veldur því að við þurfum alla vega að grípa til þessara aðgerða núna,“ bætti Jóhannes við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert