Hefur höfðað skaðabótamál á hendur MS

Ólafur Magnússon, fyrrverandi eigandi Mjólku og KÚ.
Ólafur Magnússon, fyrrverandi eigandi Mjólku og KÚ. Ljósmynd/Eyþór Árnason

„Aðgerðir MS voru þaulskipulagðar og þeim ætlað að koma keppinautum MS út af markaði og gera þá ógjaldfæra með alvarlegum afleiðingum fyrir starfsfólk þeirra, lánardrottna og eigendur. Kalla verður eftir ábyrgð þeirra sem stýrðu þessari aðför með svo illgjörnum og óvægnum hætti.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólafi M. Magnússyni, fyrrverandi eiganda mjólkurbúanna KÚ og Mjólku. Hann segir að dómur Hæstaréttar þess efnis að Mjólk­ur­sam­sal­an þurfi að greiða rík­is­sjóði 480 millj­ón­ir króna vegna mis­notk­un­ar á markaðsráðandi stöðu sé forsvarsmönnum og eigendum mikils virði eftir 16 ára erfiða baráttu.

Ólafur segist í samtali við mbl.is vera búinn að höfða skaðabótamál og stefna Mjólkusamsölunni vegna Mjólku og KÚ. Málið verði tekið fyrir fljótlega eftir páska.

Dóm­ur­inn var kveðinn upp í Hæsta­rétti á fimmtudag en í hon­um kem­ur fram að Mjólk­ur­sam­sal­an hafi mis­munað viðskiptaaðilum með ólík­um skil­mál­um í sams kon­ar viðskipt­um og þannig veikt sam­keppn­is­stöðu þeirra og með því brotið með al­var­leg­um hætti gegn sam­keppn­is­lög­um.

Málið hófst árið 2012 þegar KÚ mjólk­ur­bú sendi at­huga­semd til Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins árið 2012 um mun­inn á verði sem KÚ mjólk­ur­bú þurfti að greiða fyr­ir hrámjólk, sem er grund­vall­ar­hrá­efni við fram­leiðslu á mjólk­ur­vör­um, sam­an­borið við aðila tengda Mjólk­ur­sam­söl­unni. Hafði KÚ af mis­gán­ingi fengið send­an reikn­ing sem átti að fara til Mjólku.

Í yfirlýsingunni frá Ólafi kemur fram að meint hagræðing, sem eigi að hafa náðst vegna undanþáguákvæða frá samkeppnislögum, hafi ekki skilað sér í vasa neytenda og því síður til bænda.

Verð á mjólkurvörum er síst lægra hér landi en á erlendum mörkuðum þar sem fyrirtæki bænda hafa ekki notið þeirrar gríðarlegu verndar sem MS hefur notið á undanförnum árum með tollavernd og undanþáguheimildum frá samkeppnislögum, í raun einokunarstöðu. MS, sem er eitt þýðingarmesta afurðasölufélag bænda og flaggskip þeirra í áratugi, stendur eftir stórlaskað, orðspor þess og traust hefur orðið fyrir miklum skaða, allt lausafé uppurið og félagið því glímt við lausafjárvanda um nokkurra ára skeið,“ kemur fram í tilkynningunni.

Ólafur segir að nauðsynlegt sé að fella þegar í stað undanþáguheimildir frá samkeppnislögum úr gildi:

„Ábyrgð stjórnvalda í þessu máli er mikil þar sem undanþáguheimildir frá samkeppnislögum eru ástæða þess, að sögn stjórnenda MS, að þeir brutu samkeppnislög með svo alvarlegum hætti gagnvart keppinautum sínum „í góðri trú“. Farið hefði betur á því hjá stjórnendum MS að biðjast afsökunar á framgöngu sinni gagnvart íslenskum neytendum og þeim sem þeir brutu alvarlega á, í stað þess að reyna enn og aftur að slá ryki í augu almennings með yfirlýsingu um „meint hagræði“.“

mbl.is