Vissi ekki um dauðadóminn

Elísabet Ronaldsdóttir hefur í nógu að snúast. Hún er nú …
Elísabet Ronaldsdóttir hefur í nógu að snúast. Hún er nú að klippa stórmynd fyrir Sony sem heitir Bullet Train en er nýkomin frá Ástralíu og L.A. þar sem hún vann við að klippa tvær myndir, Shang-Chi fyrir Marvel og Kate fyrir Netflix. mbl.is/Ásdís

Í afar lúinni byggingu við Hverfisgötu finn ég klipparann Elísabetu Ronaldsdóttur þar sem hún hefur hreiðrað um sig í öggulítilli skrifstofu með útsýni yfir lögreglustöðina. Elísabet er nýkomin til landsins, búin að afplána sína sóttkví og byrjuð í fjarvinnu fyrir stórt kvikmyndaver í Hollywood. 

Eftir langt spjall um lífið og tilveruna er ljóst að hér er töffari á ferð; hún er blátt áfram, sjálfstæð fjögurra barna móðir sem unnið hefur hörðum höndum alla ævi. Elísabet hefur lifað viðburðaríku og skemmtilegu lífi sem hefur leitt hana í hin ýmsu ævintýri um heim allan, en líka í gegnum erfiðleika. Hún sigraðist á fjórða stigs krabbameini en segir veikindin ekki hafa breytt sér á neinn hátt.

Ritari skattrannsóknarstjóra

Eftir stúdentsprófið leitaði Elísabet til vinkonu sinnar sem vann á ráðningarstofu, þá einstæð móðir með eitt barn. 

„Ég fékk vinnu sem ritari skattrannsóknarstjóra,“ segir hún og hlær.

„Þetta er minn lífsbrandari þótt samstarfsfólki mínu þarna hafi kannski ekki fundist það fyndið. Ég reyndi alveg að skila mínu, en þegar litið er í baksýnisspegil var þetta undarleg u-beygja,“ segir hún og segir vinkonuna næst hafa komið sér í atvinnuviðtal hjá Sýn sem var þá kvikmyndagerð þar sem framleitt var efni fyrir sjónvarp og auglýsingar.  

Elísabet byrjaði sem símastúlka en var fljótlega farin að sinna öðrum verkum, eins og að redda „propsi“.

„Ég ákvað svo að fara í kvikmyndaskóla og fór þá til London en Mána sendi ég til foreldra minna í Svíþjóð,“ segir Elísabet sem flaug svo á milli landanna í fríum til að hitta barnið.

„Ég hafði alltaf haft áhuga á ljósmyndun og þegar ég fór í kvikmyndaskólann var ég með það á hreinu að leggja fyrir mig kvikmyndatöku. En svo gerist lífið og ég rataði inn í klippiherbergið og varð ástfangin af því ferli. En það var líka það að sú vinna hentaði mér vel sem einstæðri móður. Það hentar betur að ráða sínum tíma ein inni í klippiherbergi heldur en að stjórna her manns.“

Uppskrift að helvíti

„Ég flutti síðar til Malmö í Svíþjóð, eftir að Sindri fæðist, en vann þá í Danmörku. Ég fór til að klippa og átti bara að vera eitt sumar en það endaði með sjö árum. Svo fæddist Birta í Svíþjóð og Logi stuttu eftir að við fluttum heim til Íslands.“

Eftir heimkomuna frá Svíþjóð vann Elísabet að bíómyndum hérlendis en íslensk kvikmyndagerð var þá að sækja í sig veðrið þó að stundum hafi gengið brösuglega. Og þrátt fyrir að vera nú búin „að meika það“ í útlöndum, segist hún ekki enn vera komin með digran sjóð.

„Nei, og það eru margar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi vann ég við íslenska kvikmyndagerð í þrjátíu ár, áður en ég fór að meika það erlendis, þar sem við vorum bara sett á eyrina með þessu virðisaukaskattskerfi. Í gamla daga voru fyrirtæki að fara á hausinn hægri vinstri og maður var að skrifa út reikninga sem maður fékk ekki greidda en þurfti að standa skil á virðisaukaskattinum. Þetta var uppskrift að helvíti fyrir einstæðar mæður í Vesturbænum,“ segir Elísabet og segir oft hafa verið erfitt að ná endum saman.

„Var til nóg fyrir leigunni, átti ég fyrir mjólk? Svo uxu framleiðslufyrirtækin upp úr barnsskónum og urðu stöndugri, þrátt fyrir áframhaldandi opinbert fjársvelti. En það var bara þannig að launin rétt héldu manni á floti.“

Að fljúga með alla út um allt

Datt þér aldrei í hug að hætta í bransanum og fara bara að vinna aftur sem ritari skattrannsóknarstjóra?

„Jú, mér datt það endalaust í hug og hugsaði það í raun eftir hvert einasta verkefni. Ég var rétt að koma undir mig fótunum þegar hrunið varð. Þá sá ég ekki fram á að geta framfleytt þessum barnahópi. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera en fékk þá tilboð að fara til Singapúr að kenna kvikmyndagerð. Ég hoppaði á það og sá þarna leið út úr veseninu, en þetta var um viku eftir „Guð blessi Ísland“,“ segir Elísabet sem pakkaði saman og var komin um borð í flugvél stuttu síðar.

„Ég man að ég sat í vélinni og hugsaði: „hvern andskotinn er ég búin að gera?“,“ segir hún og hlær.

Eftir sex mánuði með börnin í Singapúr fékk Elísabet tilboð um að klippa Contraband fyrir Baltasar.

„Við flugum þá beint frá Singapúr til New Orleans, ég börnin og au-pair, en börnin þvældust með mér út um allt þar til Birtan mín fór í menntaskóla,“ segir hún og segir þau einnig hafa dvalið í London vegnar myndarinnar.

„Þetta er ástæðan fyrir að ég verð aldrei rík; ég er alltaf að fljúga með alla út um allt!“ segir hún og segist ánægð með að hafa geta gefið börnunum sínum gott líf og það í ýmsum löndum.

Börnin Sindri, Birta, Logi og Máni hafa þvælst víða með …
Börnin Sindri, Birta, Logi og Máni hafa þvælst víða með mömmu sinni og oft hefur barnabarnið Ronald verið með í för. Ljósmynd/Aðsend

„Þau eru svo víðsýn og skemmtileg. Mér finnst gott að hafa gefið þeim þetta veganesti. Þau eru svo óhrædd og mér finnst það dásamlegt.“

Þú ert klipparinn með strolluna á eftir þér?

„Já, ég kalla þetta mitt „entourage“. Hollywood-leikarar eru alltaf með svona föruneyti á eftir sér,“ segir hún og hlær.

John Wick sló í gegn

Elísabet komst á samning í Hollywood hjá stórri umboðsmannaskrifstofu. 

„Svo leið heilt ár. Á þeim tíma var naflastrengurinn enn tengdur við Baltasar og hann fór að gera HBO-þætti og ég fór með honum til Búdapest að taka upp og þaðan aftur til L.A. að klára,“ segir hún.

„Svo fer Baltasar að gera Two Guns og ákveður að ég sé ekki rétti klipparinn fyrir þá mynd. Það var smá skellur fyrir mig. En þá var það að umboðsmaðurinn minn kom mér í samband við Chad Stahelski og David Leitch sem voru þá „stunt“-menn að fara að gera sína fyrstu bíómynd. Ég var ekki spennt; tveir áhættuleikarar að fara að gera bíómynd? Ég hugsaði hvort þetta væri ekki endalok veru minnar í Hollywood. En ég fer og hitti Chad og búmm hvað ég var hrifin. Seinna hitti ég svo David og var jafn hrifin af honum. Við förum svo að gera myndina John Wick en það var enginn sem hafði áhuga á þessari mynd og stúdíóið lét okkur alveg í friði. Við slógumst í gegnum þetta en við þrjú vorum í þessu og Keanu Reeves, sem var aðalleikarinn en líka framleiðandi. Það var rifist og staðið uppi á borðum og eldhugur í öllum en aldrei leiðindi. Það vildu bara allir gera bestu mynd í heimi,“ segir Elísabet og bætir við að David hafi í gamla daga leikið áhættuatriði fyrir Brad Pitt og Chad hafi verið áhættuleikari fyrir Keanu í The Matrix.

„Þetta var algjör rússíbanareið, en mjög skemmtileg,“ segir Elísabet og segir myndina hafa tekið ár að vinna.

„Myndin John Wick sló í gegn, öllum að óvörum. Hún er talin „kultmynd“ í dag.“

Dagurinn sem gleymist aldrei

Eftir velgengni myndarinnar John Wick var leiðin greið.

„Þá opnast svo sannarlega dyr,“ segir Elísabet og útskýrir að Chad hafi farið í gerð myndarinnar John Wick 2 en David í myndina Atomic Blonde.

Elísabet er hér ásamt David Leitch og Kelly McCormick, leikstjóra …
Elísabet er hér ásamt David Leitch og Kelly McCormick, leikstjóra og framleiðanda Atomic Blonde. Þau borguðu sjúkraflug undir Elísabetu ásamt Ryan Reynolds þegar hún lá fárveik af krabbameini. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er með þá einföldu reglu sem er bara að elta konuna. Ef ég þarf að velja á milli þá vel ég þar sem eru fleiri konur og valdi því Atomic Blonde en þar er aðalleikarinn kona, Charlize Theron. Myndin var tekin að mestu upp í Búdapest þar sem ég dvaldi með börnunum. Charlize var líka framleiðandi myndarinnar og hún er bara æðisleg. Skemmtilega kaldhæðin,“ segir hún.

Eftir Atomic Blonde hélt Elísabet til Vancouver til að vinna að myndinni Deadpool 2 sem Ryan Reynolds lék í og framleiddi.

„Sonur minn Máni var þá fluttur þangað. Ég á orðið mjög stóra kínverska fjölskyldu þar því hann giftist henni Joey sem er af kínverskum ættum. Þarna fékk ég meiri tíma með þeim,“ segir Elísabet.

Allt gekk eins og í sögu þar til einn dag að lífið snerist á hvolf.

 „Slysin gera ekki boð á undan sér. Það varð svo hræðilegt slys á setti. Þetta var dagur sem allir myndu vilja gleyma en enginn gleymir,“ segir Elísabet og segir að ung kona, Joi Harris, sem var áhættuleikari á mótorhjóli, hafi keyrt í gegnum glervegg. Hún lést á staðnum.  

„Ég hef horft á tökurnar aftur og aftur og reynt að átta mig á því sem gerðist. Það var búið að segja „cut“ og svo sést tómur rammi því þetta gerist fyrir utan rammann. Við skiljum ekki hvað gerðist; þetta var ekki einu sinni hættulegt atriði.“

Fjórða stigs krabbi

Elísabet segir að starfsfólkið hafi safnast saman eftir slysið.

„Það voru allir í lamasessi. Samstarfsfólk kom til mín og lá í sófunum hjá mér og grét. Við ákváðum að panta mat og borða saman og pöntuðum hamborgara. Eftir matinn fór mér að líða svo illa og hafði orð á því að þessum hamborgara hefði ekki líkað við mig. Um kvöldið fer ég að hitta son minn og tengdadóttur og enn leið mér svo illa. Daginn eftir áttum við pantað borð á fínum sushi-stað en mér leið svo hræðilega illa að ég þurfti að fara út.“

Elísabet segist hafa farið til læknis þar sem henni var sagt að mögulegar ástæður gætu verið hægðatregða eða brisbólgur. En vanlíðan og veikindin ágerðust.

„Svo bara stóð út úr mér gallið. Þá enda ég inni á spítala og þeir fara að skoða mig betur. Þá var ég komin með fjórða stigs krabba. Ég var meira og minna meðvitundarlaus með næringu í æð. Þetta gerðist svo hratt og allt stoppast bara af því að brisið er svo mikilvægt. Það er víst ekkert hægt að fá nýtt bris!“ segir Elísabet og segir að þetta hafi verið meinvörp á brisi, um það bil tveir tennisboltar, af völdum sortuæxlis.

Sex mánuðir, hámark

Þegar þarna var komið var staðan grafalvarleg; Elísabet lá milli heims og helju á sjúkrahúsi í Vancouver og útlitið ekki bjart.

„Ég var strax viss um að ég myndi deyja þegar Máni keyrði mig fyrst á sjúkrahúsið. Ég sat í bílnum og þuldi upp pin-númer og „password“ á reikningum fyrir Mána. Það er svo skrítið hvernig maður bregst við,“ segir hún og bætir við: „Þetta gæti verið gott atriði í bíómynd; deyjandi móðirin í bílnum að þylja upp „password“,“ segir hún og hlær.

Elísabet sést hér með Mána syni sínum og þótt hún …
Elísabet sést hér með Mána syni sínum og þótt hún virki frísk að sjá er myndin tekin daginn sem hún fór á spítala, fárveik. Hún greindist svo með fjórða stigs krabba. Ljósmynd/Aðsend

En varstu ekki í sjokki?

„Nei, ég var alveg sátt. Þetta var allt í fína. Ég hafði áhyggjur af Loga, af því hann er yngstur. Ég var alveg undir það búin að deyja. En það var ekkert búið að segja mér að ég væri að deyja. Þetta var bara mín upplifun. Svo var ég komin á spítala og fékk sterk verkjalyf, stera og næringu í æð. Mána var þá sagt að þeir gæfu mér sex mánuði,“ segir hún.

„Sex mánuðir, hámark. Þeir ætluðu að sjá til þess að ég myndi ekki þjást.“

Tökulið myndarinnar var að vonum í áfalli yfir þessum fréttum. Ekki nóg með að þau misstu góða konu í hræðilegu slysi, heldur lá nú Elísabet dauðvona á spítala en þar lá hún fárveik í tvo og hálfan mánuð.

„Samstarfsmennirnir sögðu bara; þetta kemur ekki til greina!“ segir hún og segir framleiðandann Kelly McCormick hafa lagst í rannsóknarvinnu og fundið tvo lækna sem voru sérfræðingar, annar í sortuæxlum, doktor Hamid, og hinn í brisi.

Í sjúkraflugi á einkaspítala

„Þá átti eftir að koma mér þangað frá Vancouver.“

Elísabet segir að þá hafi komið í ljós að sjúkratryggingar dygðu ekki fyrir sjúkraflugi en hún var svo veik að ekkert annað kæmi til greina.

„Ryan, Kelly og David slógu saman og borguðu undir mig sjúkraflug, en ég man auðvitað ekkert eftir því. Ryan er dásamlegur maður og hafði hringt í Dr. Hamid og boðið honum að halda Deadpool-partí fyrir son hans ef hann tæki við mér. Hamid sagði seinna að hann hefði auðvitað alltaf tekið við mér, en þótt gaman að athyglinni,“ segir hún og brosir.

Máni og Joey fylgdu Elísabetu og tóku sér næstum ár í að sinna henni í veikindunum en Dr. Hamid tókst að koma Elísabetu aftur á fætur. Hin börnin þrjú voru heima á Íslandi og segir Elísabet að þau hafi ekki fengið að vita hversu alvarleg veikindin voru fyrr en löngu síðar.

„Læknarnir notuðu aðferð sem nóbelsverðlaun voru veitt fyrir,“ segir Elísabet en meinið var ekki skurðtækt. Hún lá á þessum fína einkaspítala í fjórar vikur og segir Dr. Hamid hafa verið frábæran lækni sem ráðlagði henni að vera bjartsýn því svartsýni gerði henni ekkert gott.

„Ég hlustaði bara á hann og líkaminn tók vel við meðferðinni.“

Eftir að Elísabet var útskrifuð af spítalanum var hún afar máttfarin. Hún segist hafa safnað þreki smátt og smátt, en fyrstu dagana gat hún aðeins gengið í örfáar mínútur í senn.

„Það er búið að leggja ýmislegt á þennan líkama en ég stend enn! Mér líður bara vel í dag.“

Föst í Ástralíu

Elísabetu var boðin vinna við að klippa Marvel-mynd sem hún þáði.

„Myndin heitir Shang-Chi og var tekin upp í Ástralíu og við fórum þangað í janúar 2020. Svo skall Covid á og allt fór í óvissu og vesen,“ segir Elísabet sem átti upphaflega að vera í Ástralíu í um tvo mánuði. Það átti eftir að teygjast úr því.

Hér er Elísabet í Ástralíu með Sindra syni sínum, en …
Hér er Elísabet í Ástralíu með Sindra syni sínum, en hún var megnið af Covid-árinu í Sydney. Ljósmynd/Aðsend

„Að hluta til vorum við lokuð inni en svo vissi heldur enginn hvað væri að fara að gerast. Það var ekki auðvelt að taka ákvarðanir á þessum tíma, en þetta er auðvitað mörg hundruð milljón dollara framleiðsla. Marvel segir okkur svo að þeir þurfi að setja okkur í frí en við mættum ekki fara úr landi. Á sama tíma fékk ég verkefni hjá Netflix sem ég ákvað að vinna við í fríinu og fékk samþykki hjá Marvel fyrir því. Netflix sendi mér myndina en það fór svo að Marvel sendi okkur svo aldrei í frí. Þannig að á endanum var ég að klippa tvær bíómyndir, Marvel-myndina á daginn og Netflix-myndina, Kate, á kvöldin. Það var rosa gaman og brjálað að gera í Ástralíu!“ segir Elísabet sem naut þess að búa í Sydney.

Frá Ástralíu hélt hún til L.A. til að klára vinnuna við Marvel-myndina en á þessu ári bjuggu Birta og Logi, yngstu börnin, ein á Íslandi.

„Það var auðvitað aldrei planið en þau stóðu sig rosalega vel. En nú er ég komin heim og það er allt í góðu standi. Þau eru svo sem engin börn lengur. Við erum öll svo yndislega náin og svo á ég líka þrettán ára barnabarn, hann Ronald, sem er mikið með okkur.“

Skúra gólf ef ég þarf

Nýjasta verkefni Elísabetar er að klippa myndina Bullet Train sem Sony framleiðir; hasar-spennumynd með Brad Pitt og Söndru Bullock.  

„Planið var svo að fara til Vancouver og klára myndina þar en vegna Covid gekk ekki að koma fólki þangað. Þeir báðu fólk að vinna heiman frá og ég benti þeim kurteislega á það að heiman frá þýddi Ísland fyrir mig. Og þeir bara samþykktu það!“ segir Elísabet sem bendir á að kvikmyndaverin vilji yfirleitt alls ekki senda efni sitt á milli landa af hræðslu við stuld. Þá kemur sér vel að vera við hlið lögreglunnar í Reykjavík!  

„Ég sendi þeim mynd af löggustöðinni hérna beint á móti, til að róa þau,“ segir hún og hlær.

Elísabet segist ekki vita hvaða verkefni bíði hennar eftir Bullet Train en hefur engar áhyggjur.

„Þá fer ég bara að skúra gólf ef ég þarf. Ég lærði snemma að bjarga mér og ég held því áfram.“

Elísabet og einkadóttirin Birta sjást hér á góðri stundu í …
Elísabet og einkadóttirin Birta sjást hér á góðri stundu í L.A. Ljósmynd/Aðsend

Hef ekki endurskoðað líf mitt

Við endum spjallið inni á krúttlegu kaffihúsi í nágrenninu. Elísabet býður upp á kaffibolla og það fer vel um okkur í mjúkum bleikum sófa. Talið berst aftur að veikindinum.

Elísabet segist vera sama manneskja og hún var fyrir veikindin. Hún hafi ekkert breyst.

„Þess er næstum því krafist að maður verði betri manneskja eða öðlist æðri tilgang í lífinu eftir lífsbjörg. Ég er afar þakklát fyrir að vera á lífi, en ég er ekkert betri manneskja og hef engar háleitar hugmyndir um göfugan tilgang. Ég hef ekki endurskoðað líf mitt eða hugleitt hvar ég væri stödd. Ég er bara sami kjáninn og alltaf. En kannski var ég barasta ekkert slæm manneskja fyrir og kannski er ég bara stödd á réttum stað í lífinu.“  

Lesa má viðtalið í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »