Megi eiga von á áframhaldandi jarðskjálftahviðum

Kvikugangurinn er merktur með rauðu á myndinni.
Kvikugangurinn er merktur með rauðu á myndinni. Ljósmynd/Almannavarnir

„Við erum nú í tímabili þar sem kvika flæðir inn í jarðlög undir Fagradalsfjalli. Við það myndast spenna í norður-suður-sprungum austan og vestan við umbrotasvæðið.“

Þetta kemur fram á facebook-síðu almannavarna vegna skjálftahrinu og mögulegra eldsumbrota á Reykjanesskaga.

Þegar næg spenna hefur myndast, þá hrökkva sprungurnar og við það koma skjálftahrinur, en nokkrir stórir skjálftar riðu til að mynda yfir við Fagradalsfjall í nótt.

Eftir þær kemur slökun og tímabil minni skjálfta þar til spennan verður aftur of há og svipuð hrina kemur. Gera má ráð fyrir því að ef gangurinn heldur áfram að myndast næstu daga og vikur þá megi eiga von á slíkum áhlaupum og jarðskjálftahviðum nokkrum sinnum.

mbl.is